Hraust handboltakona nær dauða en lífi

Embla Steindórsdóttir í leik með Stjörnunni.
Embla Steindórsdóttir í leik með Stjörnunni. mbl.is/Óttar Geirsson

Kristín Guðmundsdóttir, fyrrverandi handboltakona, segir upplifun dóttur hennar Emblu Steindórsdóttur, leikmanns Stjörnunnar í handbolta, af heilbrigðiskrefinu á Íslandi hafa verið með versta móti. Dóttir hennar hafi veikst alvarlega í New York og erfitt hafi reynst að fá þá hjálp sem þurfti hér á landi.

Voru þær staddar í New York til þess að fylgja Telmu tvíburasystur Emblu í háskóla þar í borg.

„Ég og Embla fórum til New York 1. ágúst til að skila Telmunni okkar í háskóla þar. Á leiðinni fór Embla að finna fyrir því að hún væri að verða veik sem var svo týpískt þar sem nokkrir fjölskyldumeðlimir höfðu verið veikir síðustu vikurnar, og við á leið til NY til að njóta í 6 daga, og auðvitað fylgja Telmu í skólann.

En til að gera langa sögu aðeins styttri þá veikist Embla illa næstu daga, er með yfir 40 stiga hita, mikinn hósta og hræðilega ælupest og var farin að anda eins og gamalmenni þarna í lokin. Við rétt komumst heim 6. ágúst um kvöldið og lendum á Íslandi snemma morguns 7. ágúst.

Við náðum svo að leggja okkur í 2-3 tíma enda hvorug okkar sofið neitt eða borðað í þessa 6 daga sem við vorum úti. Ég hringi svo á heilsugæsluna um 11 leytið til að fá tíma þar en eins og staðan er orðin á flestum heilsugæslum þá er aldrei möguleiki að fá tíma samdægurs nema á vaktinni milli 16-18 en þar er heldur ekki hægt að fá tíma nema panta samdægurs og ef maður gerir það ekki milli 8-9 eru allir tímar farnir, áður fyrr mætti fólk bara á vaktina og fór í röð,“ skrifaði Kristín í opinni færslu á Facebook-síðu sinni í lok síðasta mánaðar.

Kristín Guðmundsdóttir og Embla Steindórsdóttir eftir leik með HK gegn …
Kristín Guðmundsdóttir og Embla Steindórsdóttir eftir leik með HK gegn Val fyrir þremur árum. Ljósmynd/HK Handbolti

Náði að gráta út tíma

Kristín náði þó að sjá til þess að Embla fengi tíma.

„En ég náði að gráta það út að koma Emblu fyrir því hún hafi nánast verið nær dauða en lífi þessa daga í NY. Við mætum kl 16.00 á heilsugæsluna og komumst fljótlega inn, en þessar 10-15 mín sem Embla var að bíða lá hún á gólfinu á klósettinu þar sem henni leið það illa.

Hún rétt staulaðist inn til læknisins sem sá strax að hún var mikið veik, hann mældi hana með hita, var ekki lengi að finna út að hún væri pottþétt með lungnabólgu og súrefnismettun var 88% (fyrir ykkur sem skiljið hvað það er), en mér skilst semsagt að súrefnismettun 88% sé mjög lág.

Læknirinn segir að við þurfum að fara beint á bráðamóttökuna og hann ætli að skrifa beiðni þannig að við komumst fljótlega inn, ég sagði nú við hann tekur þetta ekki 4-5 tíma að bíða þarna, hann segir við mig að núna sé ég búin að fá forskoðun og það þurfi því ekki aftur.

Hann skrifar í beiðni, hraust stelpa mikið veik, er pottþétt með lungabógu og bið ég um að hún verði mynduð, eins er súrefnismettun lág eða 88%, skrifar svo líka í beiðnina að ég bið ykkur að taka hana strax inn. Þegar við komum svo út í bíl ælir Embla í hundraðasta skipti,“ skrifaði hún.

Tímasóun að fara til heimilislæknis

Á bráðamótttökunni beið Embla í þrjá tíma, lá lengi á köldu gólfinu í biðstofunni sárkvalin áður en hún komst loks að. Á bráðamóttökunni hafi hún gengist undir sömu skoðanir og hjá heimilislækninum

„[S]em sagt tímasóun að bíða allan daginn með að fara til heimilislæknis ef enginn ætlar svo að hlusta á hann, ég hefði betur farið bara beint á bráðamóttökuna og verið þá komin þangað 11 um morguninn í stað þess að vera þarna um kvöldið.

En læknaneminn (maður fær bara nema) hlustaði og hlustaði Emblu og komst svo að þeirri niðurstöðu að mögulega væri hún með lungnabólgu og best væri nú bara að senda hana í myndatöku, (þetta vissi heimilislæknirinn þannig að Embla hefði bara átt að fara beint í myndatöku þegar hún kom) það tók nú frekar fljótan tíma að fara í myndatöku og fá út úr henni.

Og þá sagði hann stoltur að það hefði komið út úr myndatökunni að Embla væri með lungnabólgu í báðum lungum og það þyrfti að leggja hana inn. Hún mundi svo fá lyf og svo önnur lyf í æð sem eru breiðvirkari til að koma í veg fyrir að það séu einhverjar aðrar sýkingar í gangi. Embla fær svo þarna vökva í æð sem ég var marg búin að biðja um því hún var ekki búin að borða eða drekka mikið í 6 daga.

Svo líða að lágmarki 2-3 tímar þegar læknirinn labbar aftur fram hjá okkur og ég spyr hvort að Embla hafi ekki átt að fá lyf í æð,,hann svarar jú er hún ekki búin að fá það NEI ÞAÐ GLEYMDIST,” skrifaði Kristín.

Ekki bara gamla fólkið

Embla fékk loks inni á Barnaspítala Hringsins eftir tvær nætur á bráðamóttökunni þar sem unnt var að sinna henni betur. Dvölin þar hjálpaði Emblu að komast á bataveg en mun það taka hana tíma að jafna sig að fullu.

„Embla liggur á spítala í 8 daga eftir að hafa verið veik í 6 daga á undan, eins og flestir vita er hún hraust landsliðskona í handbolta í topp formi, það mun taka Emblu all nokkrar vikur að komast á sama stað og hún var.

Mér finnst mikilvægt að deila þessu svo fólk sjái í alvöru hvernig staðan er á heilbrigðiskerfinu okkar, og það er ekki bara gamla fólkið sem lendir í þessu heldur líka hrausta unga fólkið,“ skrifaði Kristín að lokum en færslu hennar má lesa í heild sinni hér:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka