Valur mætir tveimur Íslendingaliðum

Bjarni í Selvindi í leik með Val gegn Spacva.
Bjarni í Selvindi í leik með Val gegn Spacva. mbl.is/Ólafur Árdal

Valur tryggði sér sæti í Evrópudeild karla í handbolta í dag. Liðið tapaði gegn Spacva með átta marka mun, 32:24, í Króatíu í dag en vann einvígið samanlagt 58:57 eftir níu marka sigur á Hlíðarenda í síðustu viku.  

Stuttu eftir leikinn var dregið í riðla Evrópudeildarinnar og nú er ljóst að Valur mun spila í F-riðli. Með Valsmönnum eru Melsungen frá Þýskalandi, Porto frá Portúgal og Vardar frá Norður-Makedóníu.  

Það þýðir að Valur mun mæta tveimur Íslendingaliðum en Elvar Örn Jónsson og Arnar Freyr Arnarsson leika með Melsungen og Þorsteinn Leó Gunnarsson spilar með Porto. 

Riðlakeppnin hefst 8. október og eiga Valsmenn fyrsta leik í Skopje gegn Vardar.  

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert