Þýska handknattleiksliðið Gummersbach, með Guðjón Val Sigurðsson sem þjálfara og Teit Örn Einarsson og Elliða Snæ Viðarsson sem leikmenn, sækir Íslandsmeistara FH heim í Evrópudeildinni í vetur.
Þetta varð endanlega ljóst í dag þegar Gummersbach vann seinni umspilsleik sinn við Mors frá Danmörku, 39:30, á heimavelli. Þessi niðurstaða blasti reyndar við því Gummersbach hafði unnið stórsigur í fyrri leiknum í Danmörku, 35:22.
Teitur var drjúgur í liði Gummersbach í dag og var markahæstur með sjö mörk úr átta skotum. Elliði skoraði tvö mörk úr þremur skotum.
FH, Gummersbach, Sävehof frá Svíþjóð og Toulouse frá Frakklandi verða þar með saman í riðli í Evrópudeildinni en FH-ingar fengu beint sæti þar sem Íslandsmeistarar.