Stoltur Guðjón Valur

Guðjón Valur Sigurðsson.
Guðjón Valur Sigurðsson. Ljósmynd/Gummersbach

Guðjón Valur Sigurðsson, þjálfari þýska handboltaliðsins Gummersbach, segist stoltur af árangri síns liðs en liðið tekur þátt í riðlakeppni Evrópudeildarinnar eftir sigur á danska liðinu Mors-Thy.

Leikjunum lauk með tveimur stórsigrum þýska liðsins, 35:22 á útivelli og 39:30 á heimavelli. Guðjón hrósaði markvörðum sínum sérstaklega eftir síðari leikinn, þeim Dominik Kuzmanovic og Bertram Obling.

„Í öllum leikjunum það sem af er tímabilinu hafa markverðirnir verið frábærir og það hjálpaði okkur mikið í síðari leiknum gegn Mors-Thy til að byggja upp gott forskot“, sagði Guðjón.

„Ég er mjög stoltur í dag, við erum með sjö leikmenn í okkar liði sem fóru upp úr næstefstu deild með liðinu árið 2022 og núna tveimur árum og fjórum mánuðum síðar erum við komnir í riðlakeppni Evrópudeildarinnar. Við höfum lagt hart að okkur fyrir félagið og það gleður mig“, sagði Guðjón Valur þegar sætið í riðlakeppninni var í höfn.

Elliði Snær Viðarsson og Teitur Örn Einarsson leika með Gummersbach.

Elliði Snær Viðarsson leikur með Gummersbach.
Elliði Snær Viðarsson leikur með Gummersbach. Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert