Frumraunin kom gegn stórliðinu

Benedikt Gunnar Óskarsson, Sigvaldi Björn Guðjónsson og Sveinn Jóhannsson eftir …
Benedikt Gunnar Óskarsson, Sigvaldi Björn Guðjónsson og Sveinn Jóhannsson eftir leik. Ljósmynd/Jon Forberg

Barcelona hafði betur gegn Kolstad á útivelli, 35:30, í fyrsta leik liðanna í B-riðli í Meistaradeild Evrópu í handbolta í dag.

Barcelona var með nokkra yfirburði í fyrri hálfleik og var staðan í leikhléi 20:13. Kolstad byrjaði seinni hálfleikinn á að minnka muninn í fjögur mörk, 22:18.

Þegar seinni hálfleikur var hálfnaður munaði tveimur mörkum á liðunum, 25:23. Barcelona reyndist hins vegar ögn sterkara á lokakaflanum.

Sveinn Jóhannsson var markahæstur Íslendinganna þriggja hjá Kolstad með þrjú mörk en hann var að leika sinn fyrsta leik í keppninni eftir komuna frá þýska liðinu Minden í sumar.

Benedikt Gunnar Óskarsson var einnig að leika sinn fyrsta leik í keppninni, en hann kom til Kolstad frá Val í sumar. Hann skoraði eitt mark fyrir Kolstad, eins og Sigvaldi Björn Guðjónsson. Dika Mem var markahæstur hjá Barcelona með sex mörk.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert