Borðaði tíu egg og þrjár steikur á dag

Teitur Örn Einarsson.
Teitur Örn Einarsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Handknattleiksmaðurinn Teitur Örn Einarsson fer vel af stað með sínu nýja félagi Gummersbach, en hann gekk til liðs við þýska félagið í sumar frá þýska stórliðinu Flensburg.

Teitur Örn, sem er 25 ára gamall, er uppalinn á Selfossi en gekk til liðs við Kristianstad í Svíþjóð þegar hann var tvítugur. Hann lék með sænska liðinu í þrjú tímabil en gekk svo til liðs við Flensburg í Þýskalandi, þar sem hann var í þrjú ár.

Selfyssingurinn var markahæsti leikmaður Gummersbach þegar liðið tryggði sér á dögunum sæti í riðlakeppni Evrópudeildarinnar með stórsigri gegn Mors-Thy frá Danmörku, 39:30, í síðari leik liðanna í Þýskalandi. Teitur Örn skoraði 7 mörk í leiknum og var markahæstur en Gummersbach, undir stjórn fyrrverandi landsliðsfyrirliðans Guðjóns Vals Sigurðssonar, vann einvígið örugglega 74:52.

Mikill munur á deildunum

Teitur var á meðal bestu leikmanna sænsku úrvalsdeildarinnar og segir að stökkið hafi verið stórt að fara úr efstu deild Svíþjóðar í þýsku 1. deildina árið 2021.

„Það er rosalegur munur, líkamlega séð, á þessum deildum. Það er líka mikill munur á bæði hraða og geta leikmannanna. Þetta er í raun bara allt annar klassi, bæði þegar kemur að kílógrömmum og getu. Ég þurfti að bæta á mig einhverjum 10 kílógrömmum á fyrsta árinu mínu í Þýskalandi,“ sagði Teitur.

„Þetta snerist fyrst og fremst um mataræðið. Þú æfir auðvitað endalaust þannig að þegar allt kemur til alls snýst þetta um það hversu mikið af eggjum og kjöti þú getur troðið í þig. Fæðubótarefnin hjálpa en þegar allt kemur til alls snýst þetta um það hver nennir að borða mest. Við erum að tala um tíu egg á dag og þrjár steikur,“ sagði Teitur meðal annars.

Ítarlegt viðtal við Teit Örn má sjá á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert