Draumur að byrja svona vel á heimavelli

Jovan Kukobat í leik með Aftureldingu á síðasta tímabili.
Jovan Kukobat í leik með Aftureldingu á síðasta tímabili. mbl.is/Eyþór Árnason

„Þetta var frábær liðssigur,“ sagði Jovan Kukobat, markmaður HK í úrvalsdeild karla í handbolta eftir, 36:32, sigur á Íslandsmeisturum FH í Kórnum í kvöld.

„Þetta er draumur að byrja svona vel á heimavelli, að sigra Íslandsmeistarana á heimavelli er frábær tilfinning.

Fyrsti leikurinn á mótinu gegn Stjörnunni var erfiður, töpuðum með tveimur mörkum en við undirbjuggum okkur vel fyrir þennan leik og mér fannst við eiga sigurinn skilið,” sagði Kukobat í viðtali við mbl.is eftir leikinn en hann átti flottan leik og varði 14 skot.

„Strákarnir spiluðu vel líka, komu sérstaklega vel inn í seinni hálfleik og við gáfum þeim ekki möguleika á að komast yfir.“

Kukobat kom í HK fyrir tímabilið frá Aftureldingu og byrjar vel.

 „Þetta er nýtt lið, nýir strákar og nýr þjálfari og ég er að kynnast öllum og njóta. Það er mikið af ungum leikmönnum og það er gaman að ná góðum árangri og vaxa með þessu liði.“

HK lenti í 10. sæti í deildinni í fyrra og missti af sæti í umspili en Kukobat komst sjálfur í úrslitaeinvígið með Aftureldingu þar sem liðið tapaði gegn FH.  

„Það er erfitt að segja það núna en markmiðið er auðvitað að komast í úrslitakeppnina. Við ættum að setja markmiðið hátt og það er nóg eftir en ef við höldum áfram að spila eins og við gerðum í dag þá er það möguleiki.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert