„Honum finnst gaman að vinna KA“

Ásgeir Örn ræðir við sína menn í kvöld.
Ásgeir Örn ræðir við sína menn í kvöld. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Það var létt yfir þjálfaranum Ásgeiri Erni Hallgrímssyni eftir að Haukar höfðu lagt KA á sannfærandi hátt í úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld.

Leikið var í KA-heimilinu og lauk leiknum með átta marka sigri Hauka, 34:26. Skarphéðinn Ívar Einarsson var atkvæðamestur Haukanna í leiknum en hann er uppalinn í KA og var að mæta á sinn gamla heimavöll í fyrsta skipti.

Mbl.is ætlaði að grípa Skarphéðinn í viðtal en þjálfarinn sagði að hann hefði ekki gott af því. Það þyrfti að ná honum niður.

Þetta var sannfærandi sigur hjá ykkur og fyrir utan síðustu fimm mínúturnar í fyrri hálfleik þá virtust þið hafa fulla stjórn á leiknum.

Ásgeir Örn á hliðarlínunni í dag.
Ásgeir Örn á hliðarlínunni í dag. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

„Það er hárrétt. Mér fannst við leiðandi allan leikinn en duttum niður á þeim kafla sem þú minnist á. Við fengum á okkur réttmætar en óþarfa brottvísanir og vorum fjórir á sex allt of lengi. Það riðlaði leik okkar og við unnum illa úr þeirri stöðu. Ég var ekkert sérstaklega ánægður með stöðuna í hálfleik. Mér fannst við eiga að vera með meira forskot.“

KA hafði þá náð að skora fimm mörk í röð og breyta stöðunni úr 11:18 í 16:18. Í seinni hálfleiknum tóku Haukarnir fljótlega öll völd og kvittuðu strax fyrir slæma kaflann í lok fyrri hálfleiks.

„Við mjötluðum þetta svo bara inn í seinni hálfleik. Gerðum þetta vel og gerðum þetta þægilegt. Ég er bara mjög ánægður með gaurana. Við getum róterað fleiri mönnum og vorum með ferskari fætur og héldum leikinn betur út. Ég held að það sé mögulega stór þáttur í sigrinum.“

Þið byrjið mótið sannfærandi. Sigrar gegn Aftureldingu og KA.

„Sigurinn gegn Aftureldingu var mjög tæpur en Afturelding er með frábært lið þannig að það er sterkt að hafa kreist fram sigur gegn þeim. Svo er alltaf erfitt að spila hér gegn KA þannig að byrjunin hjá okkur er ánægjuleg. Þetta er það sem við ætlum að gera. Við horfum stutt fram í tímann og einbeitum okkur að næsta leik. Það virkar ótrúlega vel.“

Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Það var töluverð leikmannavelta hjá ykkur milli leiktíða og nýtt og yngra blóð sem þú færð að vinna með.

„Já, töluvert meira en hefur verið og við fengum náttúrulega frábæra sendingu héðan.“ Þar á hann náttúrulega við Skarphéðinn Ívar. „Við erum mjög ánægðir með það og svo sem alla hina líka. Þetta virðist vera að smella.“

Nú ert þú með þrjá Akureyringa í hópnum hjá þér en tveir af þeim virðast gjörsamlega búnir.

Nú hlær Ásgeir Örn innilega. „Þeir eru flottir. Geir er búinn að vera að glíma við mikil meiðsli og hefur verið tæpur. Það var ánægjulegt að sjá hann koma sterkan inn í dag. Hann vill alltaf spila og það var gaman að geta leyft honum að spila í dag. Honum finnst gaman að vinna KA. Ég veit það.“

Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Honum finnst sjálfsagt ekkert jafn skemmtilegt, enda alinn upp í Þór. En svo er það frændi hans Guðmundur Hólmar. Hann er á leikskýrslu titlaður þjálfari.

„Já. Hann fær að vera það. Hann er bara enn þá að glíma við axlarmeiðslin sín. Mér finnst gott að hafa hann á bekknum og hann vill koma með í leikina. Þá hef ég hann bara sem þjálfara.“

Þarftu ekki að fara að banna þessum mönnum að spila golf? Þeir lagast ekkert í skrokknum við það. Er það kannski bara íþróttin sem bíður þeirra?

„Ég veit ekki með það. Þeir spila allavega nógu andskoti mikið, finnst mér,“ sagði Ásgeir Örn að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert