Janus Daði Smárason, landsliðsmaður í handknattleik, gekk í sumar til liðs við ungverska félagið Pick Szeged og skrifaði undir tveggja ára samning. Kom hann frá Þýskalands- og bikarmeisturum Magdeburg eftir eins árs dvöl.
„Þetta hefur verið voða fínt. Ég er búinn að koma mér vel fyrir með konunni. Það var öðruvísi undirbúningur fyrir tímabilið út af Ólympíuleikunum þar sem menn komu aðeins seinna til baka.
Fyrstu kynni af borginni eru voða fín og aðstaðan sem við erum með er held ég ein sú flottasta í handboltanum. Það fer voða vel um mig,“ sagði Janus í samtali við Morgunblaðið.
Pick Szeged er í Szeged, þriðju stærstu borg Ungverjalands. Selfyssingurinn hefur komið víða við á undanförnum árum og flyst nú búferlum til annars lands þriðja sumarið í röð. Hann hefur spilað fyrir Magdeburg og Kolstad í Noregi undanfarin tvö tímabil og var þar á undan hjá Göppingen í Þýskalandi og Aalborg í Danmörku.
Spurður hvar Pick Szeged stæði í samanburði við fyrri félög á atvinnumannsferlinum sagði Janus:
„Það var byggð ný höll hérna fyrir EM í Ungverjalandi 2022 þannig að allt sem við erum með er nýtt, stórt og mikið. Handboltinn er svolítið eins og í Þýskalandi. Við erum með dæmigerð rótgróin minni bæjarfélög, sem eru með lið með hefð og kúltúr.
Gömlu hallirnar hafa ákveðinn sjarma en hérna í Szeged er allt glænýtt og öll tæki og tól til staðar. Það er rosa mikið af þeim, stundum of mikið finnst mér! En þetta er allt voða flott.“
Hann hefur farið vel af stað með liðinu, sem hefur unnið alla leiki sína í ungversku deildinni til þessa.
„Nú erum við búnir að spila fjóra leiki. Það eru nokkur lið sem eru ekki nálægt toppnum eða Evrópusætum, lakari lið sem eru með minni pening á milli handanna. Það er auðvitað öðruvísi samanborið við að vera að koma úr þýsku deildinni.
Maður þarf líka að aðlagast því, hvernig maður nálgast þá leiki og skilar vinnunni sinni vel af sér. Það jákvæða við deildina er líka að ferðalögin eru styttri. Við förum á leikdegi, allir leikir eru klukkan 18 og við förum heim um kvöldið. Upp á fjölskyldulífið er þetta hentugra,“ sagði Janus um ungversku deildina.
Viðtalið við Janus má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.