Guðmundur: „Eitt það versta sem ég hef upplifað lengi“

Guðmundur Þ. Guðmundsson, þjálfari Fredericia.
Guðmundur Þ. Guðmundsson, þjálfari Fredericia. Ljósmynd/Fredericia

Guðmundur Þ. Guðmundsson, þjálfari Fredericia, var sár og svekktur eftir að liðið tapaði stórt fyrir Sporting frá Lissabon í annarri umferð Meistaradeildar Evrópu í handknattleik karla í gærkvöldi.

Sporting vann geysilega öruggan sigur, 37:19, þar sem Orri Freyr Þorkelsson skoraði fjögur mörk fyrir portúgalska liðið.

Arnór Viðarsson skoraði þrjú mörk fyrir Fredericia og Einar Þorsteinn Ólafsson eitt.

„Auðvitað er ég mjög vonsvikinn yfir frammistöðunni. Þetta var mjög vont allt frá upphafi. Vörnin var léleg, sóknin var léleg og við töpuðum boltanum tólf sinnum, og það bara í fyrri hálfleik.

Það verður að segjast að þetta tap er eitt það versta sem ég hef upplifað lengi. Þetta var svona allan leikinn. Við vorum mjög slakir í vörninni og ólíkir sjálfum okkur,“ sagði Guðmundur í samtali við dönsku sjónvarpsstöðina TV 2.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert