Vorum ekki frábærir í kvöld

Hans Jörgen Ólafsson úr Stjörnunni kemst hvergi gegn sterki vörn …
Hans Jörgen Ólafsson úr Stjörnunni kemst hvergi gegn sterki vörn FH í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

FH vann í kvöld þriðja leikinn í röð þegar Hafnfirðingar mættu Stjörnunni í Garðabæ í úrvalsdeild karla í handbolta. Leikurinn var jafn framan af en að lokum sigldu FH-ingar fram úr og unnu að lokum fjögurra marka sigur.

Sigursteinn Arndal þjálfari FH var sumpart ánægður með leik sinna manna, þó sérstaklega vörnina, en talaði um að eitt og annað hefði mátt betur fara í sóknarleiknum þegar mbl.is náði honum á tal strax eftir leik.

Hvað skóp sigurinn í kvöld?

„Þetta var erfiður leikur þar sem Stjarnan er virkilega öflugt lið sem nær að stjórna tempói vel, sérstaklega i 7 á 6. Þeir láta finna vel fyrir sér og eru mjög góðir í því. Ég er fyrst og fremst ánægður með þolinmæðina í mínum mönnum í kvöld því við vorum ekki frábærir í kvöld. Við vorum að brenna mikið af færum og tapa boltum en varnarlega vorum við mjög góðir, fáum á okkur 22 mörk sem er bara mjög flott. Við fundum lausnirnar hægt og rólega sóknarlega."

Það lítur þannig út miðað við markaskorun hornamanna FH að þið hafið látið bakverðina þeirra koma út og hjálpa skyttunum gegn Aroni og Ásbirni til að galopna hornin. Var það uppleggið í kvöld?

„Nei það er bara eins og ég sagði áðan að við fundum lausnirnar hægt og rólega og þetta var eitt af því. Við vitum að þeir eiga það til að lyfta sér upp og það var partur af lausninni. Þeir voru erfiðir en við náum að sigla fram úr þeim í lokin."

Talandi um það. Þið siglið fram úr þeim í lokin og lokið þessu í raun þegar þið náið 6 marka forskoti og 5 mínútur eftir af leiknum. Var það getumunur á liðunum eða þreyta hjá Stjörnunni sem munaði um?

„Ég veit það ekki. Hvað okkur varðar þá myndi ég segja seigla, geta og barátta. Við verðum að bera virðingu fyrir því að leikirnir eru 60 mínútur og það eru fullt af frábærum liðum í þessari deild og við þurfum að hafa ofboðslega fyrir öllum leikjum en við trúum því að ef við berjumst og mætum í leikina að þá sigri gæðin að lokum," sagði Sigursteinn í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert