Gamla ljósmyndin: Hafnafjarðarslagur

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um. 

Hafnafjarðarliðin FH og Haukar mættust í vikunni sem leið í Olís-deild karla í handknattleik fyrir framan 1.200 manns. FH hafði betur 30:29 eftir spennandi leik en leikið var í Kaplakrika. Hafnafjarðarliðin byrja bæði nokkuð vel í deildinni en FH hefur unnið fjóra af fyrstu fimm leikjunum og Haukar þrjá af fyrstu fimm. 

Á meðfylgjandi mynd eigast Hafnafjarðarliðin við í Kaplakrika árið 1990 og þá fyrir framan 1.800 áhorfendur. FH hafði þá einnig betur og vann 20:18. 

Sparisjóður Hafnafjarðar treysti sér ekki til að taka afstöðu á þessum tíma enda skemmtilegur rígur á milli FH og Hauka. Bæði lið skörtuðu því auglýsingu frá sparisjóðnum á búningunum. 

Á myndinni sækir Steinar Birgisson að vörn FH en Hálfdán Þórðarson reynir að stöðva hann frá vinstra megin frá. Vel var tekist á í leiknum eins og iðulega þegar liðin mætast en Rögnvald Erlingsson, sem annaðist dómgæsluna ásamt Stefáni Arnaldssyni, sagði við Morgunblaðið að leikurinn hafi verið drengilega leikinn. Í þá daga gátu dómarar tjáð sig um leikina í fjölmiðlum ef þeim sýndist svo. Stefán sagði við Morgunblaðið að skemmtilegt væri að dæma leiki sem þessa fyrir fullu húsi. 

Líklega tengja flestir Steinar Birgisson við Víking enda kom hann inn í sigursælt Víkingslið þegar Bogdan Kowalczyk stýrði Víkingi. En eftir dvöl í Noregi gekk Steinar til liðs við Hauka en um svipað leyti nældu Haukar í Petr Baumruk eins og rifjað hefur verið upp í Gömlu ljósmyndinni. Steinar varð markakóngur í efstu deild í Noregi þegar hann skoraði 166 mörk fyrir Kristianstad í 22 leikjum.

Myndin er úr safni Morgunblaðsins en Einar Falur Ingólfsson og Júlíus Sigurjónsson mynduðu leikinn fyrir Morgunblaðið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert