„Fram er klúbbur sem stefnir alltaf á toppbaráttu“

Alfa Brá sækir að marki Vals í kvöld.
Alfa Brá sækir að marki Vals í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Veit að við erum að spila á móti dúndur liðið í Val en finnst við samt eiga svolítið inni,“ sagði Rakel Dögg Bragadóttir, þjálfari Fram í úrvalsdeild kvenna í handbolta, eftir 29:25-tap liðsins gegn Val í kvöld. 

„Ég er mjög svekkt yfir þessum leik af því mér finnst við eiga fullt inni. Það gekk illa hjá okkur í seinni hálfleik að skora, sérstaklega svona framan af svo fannst mér varnarlega vera of langt á milli okkar.

Við náum ekki að þétta nógu vel og náum ekki að taka taktinn úr þeirra sóknarleik eins og við kannski hefðum óskað okkur. Valur var heilt yfir betra liðið í dag en mér finnst við eiga svolítið inni,“ sagði Rakel í viðtali við mbl.is eftir leikinn.

Sóknin hjá Fram gekk brösuglega um tíma og mikið var um tæknifeila.

„Það er stundum bara hvort þú hittir á daginn þinn eða ekki. Við erum líka að spila Karen (Knútsdóttir) inn, og hún á eftir að slípast betur með leikmönnum. Það á eftir að laga tímasetningar og fleira hjá öllum inni á vellinum en stundum er bara hátt tempó og  hátt spennustig í svona leik og þá verða tæknifeilarnir oft fleiri.“

Karen er að koma aftur inn í liðið eftir barnsburð og mun líklegast vera í lykilhlutverki í Fram í vetur og skoraði fimm mörk í kvöld.

„Gríðarlega mikilvægt að fá hana aftur. Það er í fyrsta lagi mikil reynsla í henni og mikil gæði sem fylgja henni og mér fannst hún sýna það í dag, hún átti frábæran leik.“

Fram er í öðru sæti í deildinni og hefur byrjað vel en þessa stundina virðist ekkert lið geta stöðvað Val.

„Við erum fyrst og fremst að horfa á okkur sjálf og reyna að bæta okkur, bæta okkur leik eftir leik og í lok tímabils getum við horft til baka og verið ánægð með framfarirnar, hvað það skilar okkur verður að koma í ljós.  

Ég held að það sér óhætt að segja það að Fram er klúbbur sem stefnir alltaf á toppbaráttu en fyrst og fremst efum við að horfa á okkur sjálf og að bæta okkur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert