Ekkert alltof sáttur við heildar frammistöðuna

Einar Jónsson, þjálfari Fram.
Einar Jónsson, þjálfari Fram. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Einar Jónsson þjálfari Fram í handbolta karla var sáttur með stigin tvö gegn KA en Fram vann leikinn 34:28 í kvöld.

Hann sagði þó að margt hefði betur mátt fara þegar mbl.is tók hann tali strax eftir leikinn í kvöld.

„Við vorum flottir síðustu 10 mínúturnar í seinni hálfleiknum og náum fínu forskoti ásamt því að vörnin small en við byrjuðum hörmulega í bæði fyrri hálfleik og seinni hálfleik þar sem við hleypum þeim inn í þetta,“ sagði Einar spurður út í frammistöðu Fram í kvöld. 

En hvað var það sem skóp sigurinn hjá þínum mönnum í kvöld?

„Það sem skóp sigurinn var að við endum báða hálfleikana mjög vel. Ég er ekkert alltof sáttur við heildar frammistöðuna. Ég verð að viðurkenna það,“ sagði hann.

Nicolai Horntvedt Kristensen ver 11 skot í fyrri hálfleik sem útskýrir svolítið jafnræðið milli liðana framan af fyrri hálfleik. Hvað var að klikka hjá þínum mönnum á þessum tímapunkti?

„Þetta hefur verið saga okkar í vetur fyrir utan einn leik þar sem markverðir andstæðingsins eru bestu menn liðsins. Við höfum rætt þetta en núna þurfum við bara að rífa okkur í gang með nýtingu á færum,“ sagði Einar.

Fram er að byrja þetta tímabil ágætlega ekki satt?

„Við erum búnir að tapa fyrir FH og Aftureldingu en jú, jú, stigalega séð er þetta bara fín. Við erum ennþá að vinna í okkar málum og mér finnst frammistaðan á köflum ágæt og mér finnst við eiga mikið inni. Við þurfum að laga fullt ef við ætlum okkur einhverja hluti í vetur,“ sagði hann.

Næsti leikur er úti á móti ÍR. Er það ekki verkefni sem ætti að vera hægt að sigla heim?

„Jú auðvitað eigum við að gera þær kröfur til okkar vinna ÍR á venjulegum degi. ÍR-ingar eru samt búnir að vera hrikalega flottir og Bjarni er að gera flotta hluti þannig að við þurfum að taka það verkefni alvarlega og nota vikuna vel.

Við þurfum betri heildarframmistöðu ef við ætlum ekki að lenda í vandræðum gegn ÍR-ingum,“ sagði Einar að lokum í samtali við mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert