Íslendingaliðið í toppbaráttu í Svíþjóð

Ólafur Andrés Guðmundsson skoraði tvö mörk fyrir Karlskrona í kvöld.
Ólafur Andrés Guðmundsson skoraði tvö mörk fyrir Karlskrona í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Íslendingalið Karlskrona vann fjórða sigur sinn á tímabilinu í sænsku úrvalsdeildinni í handknattleik karla þegar liðið fékk botnlið Skånela í heimsókn í kvöld. Lokatölur urðu 27:21.

Karlskrona er með níu stig í öðru sæti deildarinnar, stigi á eftir toppliði Ystad, eftir sigur kvöldsins.

Ólafur Andrés Guðmundsson skoraði tvö mörk fyrir Karlskrona en Dagur Sverrir Kristjánsson komst ekki á blað að þessu sinni. Þorgils Jón Svölu Baldursson var ekki í leikmannahópnum.

Einn annar Íslendingur var í eldlínunni í kvöld. Einar Bragi Aðalsteinsson lék með Kristianstad þegar liðið tapaði á útivelli fyrir Hallby, 29:23.

Einar Bragi skoraði tvö mörk fyrir Kristianstad, sem er í fjórða sæti með sjö stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert