Gæti ekki verið á betri stað

Lovísa Thompson í baráttunni í dag.
Lovísa Thompson í baráttunni í dag. mbl.is/Hákon

Handboltakonan Lovísa Thomson er aftur komin á fullt með Val eftir tveggja ára fjarveru vegna meiðsla. Hún átti stórleik er Valsliðið vann Hauka, 29:22, í úrvalsdeildinni í dag. Lovísa skoraði sjö mörk, náði í fullt af vítum og lagði upp fjölmörg mörk.

„Maður má aldrei slaka á gegn svona góðu liði. Þetta var stigvaxandi hjá okkur. Við vildum gera okkar besta og það gekk,“ sagði Lovísa við mbl.is eftir leik.

Eins og gefur að skilja tekur það sinn tíma að ná 100 prósenta heilsu eftir eins langa fjarveru. „Mér líður mjög vel. Ég er góð í meiðslunum sem ég fór í aðgerð á en þegar maður kemur til baka eftir tvö ár er hnjask hér og þar, sem er eðlilegt.“

Valur vann sinn 32. leik í röð í öllum keppnum í dag. Lovísa er ánægð með magnaðan árangur, en á sama tíma ætlar hún ekki fram úr sér.

Hákon Pálsson

„Það er sjúklega vel gert. Það sýnir hvað við erum að gera gott starf hérna. Á sama tíma núllstillum við okkur fyrir hvern einasta leik. Hver leikur hefur sitt líf og við þurfum að undirbúa okkur mjög vel. Við þurfum að róa okkur og ekki að pæla í þessu.“

Lovísa er hæstánægð með að vera mætt aftur á völlinn eftir erfiða tíma utan vallar og dvöl í bæði Noregi og Danmörku sem reyndust vonbrigði.

„Það er ótrúlega gott að vera komin aftur. Þetta eru tvö ár með sínum vonbrigðum líka. Í dag líður mér vel, ég er í ótrúlega góðu liði, með góðan þjálfara, góða umgjörð og góðum leikmönnum.

Ég gæti ekki verið á betri stað. Þetta er ekki búið að vera dans á rósum, heldur mjög erfitt. Það er líka ótrúlega mikil vinna fram undan. Það er geðveikt að vera komin í hóp og út á völl en svo áttar maður sig á því að það er hellingur fram undan líka. Ég er glöð í dag,“ sagði hún.

Lovísa var í stóru hlutverki í íslenska landsliðinu fyrir meiðslin. Íslenska liðið er á leiðinni á sitt annað stórmót í röð í lok árs, en Lovísa er lítið að hugsa út í það.

„Ég hef ekkert hugsað um það. Eina sem ég hef hugað um er að hjálpa liðinu mínu og að líða vel,“ sagði Lovísa.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert