Íslandsmeistararnir afgreiddu Fjölni í seinni

Jóhannes Berg Andrason hleður upp í skot.
Jóhannes Berg Andrason hleður upp í skot. mbl.is/Hákon

FH hafði betur gegn Fjölni, 25:18, í úrvalsdeild karla í handknattleik í Kaplakrika í Hafnarfirði í kvöld. 

FH-ingar eru á toppnum með tíu stig eftir sjö leiki. Þeir hafa hins vegar leikið einum leik meira en liðin í kring. Fjölnismenn eru í níunda sæti með fjögur stig. 

Mikið jafnræði var á milli liðanna í fyrri hálfleik en FH-ingar voru með undirtökin og fóru tveimur mörkum yfir til búningsklefa, 13:11. 

Í seinni hálfleik var FH mun sterkari aðilinn og vann að lokum sjö marka sigur. 

Daníel Freyr Andrésson átti stórleik í marki FH og varði 16 skot og var með 50% markvörslu. Jón Bjarni Ólafsson og Símon Michael Guðjónsson skoruðu þá fimm mörk hvor fyrir FH-inga. 

Bergur Bjartmarsson var einnig frábær í marki Fjölnis og varði 14 skot. Haraldur Björn Hjörleifsson skoraði þá mest eða fimm mörk í Fjölnisliðinu. 

FH fær Íslendingalið Gummersbach frá Þýskalandi í heimsókn í Evrópudeildinni næsta þriðjudagskvöld. Næst mæta FH-ingar Gróttu í deildinni. 

Fjölnir fær Val í heimsókn í næsta leik. 

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

FH 25:18 Fjölnir opna loka
60. mín. Bergur Bjartmarsson (Fjölnir) varði skot
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka