Þýska Íslendingaliðið Blomberg-Lippe er komið í úrslitaumferð um sæti í Evrópudeild kvenna í handbolta eftir að hafa slegið út Rauðu stjörnuna frá Serbíu í seinni leik liðanna í fyrri umferð umspilsins í Belgrad í kvöld.
Rauða stjarnan vann í kvöld, 28:26. Það skipti hins vegar litlu máli þar sem fyrri leikurinn endaði með 15 marka sigri Blomberg-Lippe, 39:24, og þýska liðið vann því einvígið samanlagt 65:52.
Íslenska landsliðskonan Andrea Jacobsen lét að sér kveða með Blomberg-Lippe í kvöld og skoraði þrjú mörk. Díana Dögg Magnúsdóttir, samherji hennar í íslenska landsliðinu, komst ekki á blað að þessu sinni.
Blomberg-Lippe mætir Dijon frá Frakklandi í úrslitum um sæti í Evrópudeildinni.