Handknattleikskonan Díana Dögg Magnúsdóttir, leikmaður Blomberg-Lippe í Þýskalandi og íslenska landsliðsins, fékk þungt högg í leik þýska liðsins gegn Rauðu stjörnunni frá Serbíu í Evrópubikarnum í gærkvöldi.
Díana fékk höfuðhögg snemma leiks, en hún fékk skurð á nef og undir auga. Varð hún að fara af velli eftir aðhlynningu og kom ekki meira við sögu í leiknum.
Í stuttu samtali við mbl.is í dag sagði Díana að hún væri að öllum líkindum óbrotin, en færi í myndatöku til að fá það staðfest. Hún væri marin og bólgin á andliti.
Rauða stjarnan vann leikinn, 28:26. Það skipti hins vegar litlu máli þar sem fyrri leikurinn endaði með 15 marka sigri Blomberg-Lippe, 39:24, og þýska liðið vann því einvígið samanlagt 65:52.