Frábær tilfinning að spila gegn íslensku liði

Guðjón Valur heilsar upp á þjálfarateymi FH fyrir leik.
Guðjón Valur heilsar upp á þjálfarateymi FH fyrir leik. mbl.is/Árni Sæberg

Guðjón Valur Sigurðsson, þjálfari Gummersbach, var ánægður með frammistöðu liðsins eftir góðan sigur á FH í Evrópudeild karla í handbolta í kvöld. Spurður út í leikinn og hvað skildi á milli liðanna sagði Guðjón Valur þetta:

„Við stóðum vel varnarlega, bæði í 5-1 og 6-0 vörninni okkar. Síðan voru markmennirnir okkar mjög góðir. Gerðum fá mistök sóknarlega og nýttum færin okkar vel sem ég held að sé skýringin á því að við vinnum FH verðskuldað í kvöld. Þetta var kannski ívið stór sigur en getumunurinn er á þessum liðum er ekki svona mikill.“

Þú segir að getumunurinn milli liðanna sé ekki jafn mikill og markatalan segir í kvöld. Hvað áttu við með því?

„Ég segi þetta því mér finnst FH-liðið mjög gott. Þeir eru með hörkugóða stráka sem er frábær blanda af eldri og reyndari og svo ungum og efnilegum. Fyrir þessa ungu og efnilegu þá gæti þetta verið þeirra besti dagur hingað til þar sem þeir fá að upplifa og sjá hvað þarf til að vera atvinnumaður.

Gummersbach er miðlungslið í þýsku deildinni og þarna geta þeir séð hvað getur orðið ef þeir halda rétt á spilunum og loka sig inn í lyftingasalnum því allir eru þetta færir og góðir handboltamenn með gríðarlega bjarta framtíð ef þeir vanda sig. Nú vantar bara smá kjöt á beinin og þá eru þessir ungu strákar hjá FH klárir í stóru deildirnar úti líka.“

Þú varst leikmaður Gummersbach 2006 þegar liðið mætti Fram síðast hérna á Íslandi og skoraðir 16 mörk fyrir Gummersbach. Núna mætir þú í Kaplakrika sem þjálfari og vinnur stóran sigur. Ertu nokkuð eins konar hrollvekja fyrir íslensk handboltalið?

„Það ætla ég svo sannarlega ekki að vona. Ég er ofboðslega lukkulegur að fá það tækifæri að taka þátt í Evrópukeppni og spila gegn íslenskum liðum. Markmiðið er ekki að vinna með einhverjum risa markamun. Við viljum auðvitað taka þau stig sem í boði eru og við þurfum að vinna okkar vinnu og í dag gekk okkur betur en FH en ég er ofboðslega hrifinn af liði FH og ég er þakklátur fyrir að taka þátt í þessari veislu hérna í Kaplakrika í kvöld.“

Hvernig er tilfinningin að koma til Íslands og spila gegn íslensku félagsliði. Er þetta öðruvísi tilfinning en hefðbundinn Evrópuleikur?

„Já algjörlega. Ég er með dætur mínar tvær, strákinn minn og konuna mína hérna með mér í stúkunni. Systir mín og fjölskylda er hérna líka og það er bara frábært að fá að koma hérna heim á miðju tímabili sem maður hefði annars ekki getað og þetta er bara frábær tilfinning að spila gegn íslensku liði,“ sagði Guðjón Valur í samtali við mbl.is.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert