Gaman að sýna þeim hvaðan ég kem

Elliði Snær verst Jóhannesi Berg Andrasyni í kvöld.
Elliði Snær verst Jóhannesi Berg Andrasyni í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Eyjamaðurinn Elliði Snær Viðarsson leikmaður Gummersbach var ánægður með sigur gegn FH í kvöld í Evrópudeild karla í handbolta. Elliði skoraði 4 mörk fyrir lið sitt og átti fínan leik. Við ræddum við Eyjamanninn strax eftir leikinn í kvöld.

„Ótrúlega stoltur af frammistöðu Gummersbach í kvöld og ég er þakklátur fyrir að liðsfélagar mínir tóku þessu verkefni vel og lögðu sig fram allan leikinn. Við vorum búnir að tala um það fyrirfram að við þyrftum að vera 100% allan leikinn og við gerðum það sem er frábært."

Nú er þetta fyrsti leikurinn þinn gegn íslensku félagsliði sem atvinnumaður. Hvernig er tilfinningin að koma og hingað og spila Evrópuleik?

„Þetta er búið að vera geðveikt. Við komum hérna á sunnudag og erum búnir að eiga ótrúlega góðan tíma allt liðið saman. Það er gaman að sýna þeim landið og hvaðan ég kem. Þetta er búin að vera ótrúlega skemmtileg ferð."

HM í handbolta er fram undan í janúar. Þú væntanlega ætlar þér að vera í lokahópnum. Ertu tilbúinn í verkefnin sem eru fram undan með Íslenska landsliðinu?

„Já klárlega og ég hlakka mikið til. Við erum að hittast núna allir saman 4. nóvember þannig að það er stutt í það. Það er mikil tilhlökkun að fá að komast loksins aftur í alvöru leik með landsliðinu. Við erum bara ótrúlega spenntir að sýna hvað í okkur býr því við ætlum að standa okkur enn þá betur en við höfum gert síðustu ár," sagði Elliði í samtali við mbl.is.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert