Mjög skrýtið og mjög gaman

Þorsteinn Leó neglir að marki Vals í kvöld.
Þorsteinn Leó neglir að marki Vals í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Valur og Porto áttust við í Evrópudeild karla í handbolta í Kaplakrika fyrr í kvöld og lauk leiknum með jafntefli, 27:27, í hörkuspennandi leik. Í liði Porto var Íslendingurinn Þorsteinn Leó Gunnarsson sem gekk í raðir portúgalska liðsins eftir síðasta tímabil með Aftureldingu. Við ræddum við Þorstein Leó strax eftir leikinn í kvöld og spurðum hann út í jafnteflið gegn Valsmönnum.

„Mjög svekkjandi. Sérstaklega í ljósi þeirrar stöðu sem við vorum komnir í, 7 mörkum yfir. Við héldum bara að við værum með leikinn og förum að spila illa. Við erum bara 90% í þessum leik og það er bara ekki nóg til að vinna Val. Síðan kemur eitthvað stress í okkur og við bara náum ekki að sigla þessu heim," sagði Þorsteinn Leó.

Porto var 8 mörkum yfir eftir 2 mínútur í  seinni hálfleik en þá byrjuðu Valsmenn að vinna niður forskotið og komust á endanum tveimur mörkum yfir sem Porto náði að jafna rétt fyrir leikslok. Getur þú sagt mér hvað nákvæmlega fór úrskeiðis í ykkar leik?

„Við förum að klikka á skotum úr góðum færum. Eftir það fer sjálfstraustið og við förum að taka skrýtnar ákvarðanir. Við bara náðum ekki að komast upp úr holunni sem við vorum búnir að grafa okkur ofan í."

Hvernig var tilfinningin að koma til Íslands og spila gegn íslensku liði sem atvinnumaður í erlendu liði?

„Það var mjög skrýtið að keppa á á móti íslensku liði en mjög gaman. Þrátt fyrir svekkjandi tap þá náði ég ekki að spila minn besta leik."

Hvernig eru fyrstu mánuðirnir í atvinnumennsku að fara með þig?

„Bara mjög vel og mér finnst ég vera að standa mig mjög vel. Ég er bara að upplifa drauminn og er að njóta þess."

Nú er landsliðið að fara í lokamót í janúar. Ætlar Þorsteinn Leó Gunnarsson að vera í lokahópi Íslands í janúar?

„Klárlega. Ég ætla mér að vera í lokahópnum og ætla að bæta mig og spila með enn betri gæðum til að vera í lokahópnum í janúar," sagði Þorsteinn Leó í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert