„Þetta leggst ótrúlega vel í mig. Þetta er bara annar Evrópuleikurinn minn. Þetta er búin að vera löng vegferð hjá okkur í Gummersbach en á sama tíma mjög stutt,“ sagði Elliði Snær Viðarsson, línumaður gamla þýska handboltastórveldisins, í samtali við Morgunblaðið.
Íslendingalið Gummersbach, sem Guðjón Valur Sigurðsson þjálfar og Teitur Örn Einarsson leikur einnig með, heimsækir FH í annarri umferð H-riðils Evrópudeildarinnar í Kaplakrika klukkan 20.30 í kvöld.
„Við komum upp úr þýsku B-deildinni og erum búnir að ná að afreka það að komast í Evrópukeppni á tveimur árum í efstu deild. Það er eitthvað sem ég er mjög stoltur af öllu liðinu að hafa náð.
Það er svo ótrúlega gaman að hafa dregist beint í að spila á móti íslensku liði. Það toppar þetta bara og gerir ennþá skemmtilegra,“ bætti Elliði Snær við.
Í kvöld verður sannkölluð handboltaveisla í Kaplakrika þar sem Evrópubikarmeistarar Vals færðu heimaleik sinn af Hlíðarenda yfir í Hafnarfjörðinn og mæta Þorsteini Leó Gunnarssyni og félögum í Porto fyrr um kvöldið, klukkan 18.15. Eyjamanninum líst vel á þetta fyrirkomulag.
„Það er náttúrlega ótrúlega íslenskt en á sama tíma geggjað að fólk, ekki bara stuðningsmenn liðanna heldur handboltaáhugafólk, geti komið og varið heilu kvöldi í Kaplakrika og séð tvo frábæra leiki hjá fjórum góðum liðum.
Það er ótrúlega skemmtilegt að bæði lið hafi tekið sig saman og sameinast um þetta. Það er frábært,“ sagði Elliði Snær.
Valur leikur í F-riðli og tapaði fyrsta leik sínum í riðlinum fyrir Vardar í Skopje í Norður-Makedóníu í síðustu viku. FH tapaði einnig sínum leik, gegn Toulouse í Frakklandi.
Bæði íslensku liðin freista þess að ná í sín fyrstu stig í Evrópudeildinni í tvíhöfða kvöldsins, þó andstæðingarnir séu afar sterkir. Von er á mikilli stemningu í Kaplakrika og fer hver að verða síðastur að tryggja sér miða á báða leikina, en miðasala fer fram á Stubbi.
Viðtalið við Elliða Snæ má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.