„Það er kannski íslenska bilunin“

Elliði Snær Viðarsson í leik með íslenska landsliðinu.
Elliði Snær Viðarsson í leik með íslenska landsliðinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta er búið að vera ótrúlega gaman. Það er búið að vera eitthvað um meiðsli hjá okkur þannig að það er búið að vera mikið álag á leikmönnum,“ sagði Elliði Snær Viðarsson, línumaður Gummersbach og íslenska landsliðsins í handknattleik.

Gummersbach er komið í heimsókn til Íslands og mætir FH í Kaplakrika í Evrópudeildinni í kvöld.

„Þetta eru ótrúlega margir leikir en samt ótrúlega gaman. Allir þurfa að spila mikið og það er flott mottó hjá okkur að það er engin pása hjá neinum sem er í hóp. Það er búið að vera svolítið svoleiðis upp á síðkastið,“ bætti hann við í samtali við mbl.is

Gekk bókstaflega allt upp

Uppgangur gamla þýska stórveldisins undir stjórn Guðjóns Vals Sigurðssonar hefur verið með nokkrum ólíkindum undanfarin ár en aðeins eru tvö ár síðan liðið komst upp úr þýsku B-deildinni og er nú að spila í riðlakeppni Evrópudeildarinnar.

Elliði Snær hefur átt stóran þátt í þessum uppgangi enda verið hjá félaginu síðan árið 2020.

Hvernig hefur það verið fyrir þig að vera hluti af þessum uppgangi hjá Gummersbach undanfarin ár?

„Það er kannski íslenska bilunin að við höfum óbilaða trú á sjálfum okkur. Það hefur verið markmið frá því við komum að koma liðinu á sem bestan stað á sem fæstum árum. Það hefur gengið ótrúlega vel.

Við förum inn í alla leiki í deildinni og ætlum okkur að vinna, sama hver mætir okkur. Það hefur gengið ótrúlega vel upp á síðkastið. Endirinn á síðasta tímabili var draumi líkastur þar sem bókstaflega allt gekk upp og við náðum að tryggja okkur sæti í umspili Evrópudeildarinnar.

Það hélt svolítið áfram þar til við náðum að tryggja okkur inn í riðlana, þá kom eitthvað smá spennufall hjá liðinu og við töpum óvænt leik á heimavelli. En síðan þá eru komnir sex leikir í röð þar sem við erum búnir að vinna eða ná jafntefli. Við erum aftur á góðu róli og ég er mjög bjartsýnn fyrir framhaldinu,“ sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka