Óskar Bjarni Óskarsson þjálfari Vals var að vonum ánægður með 27:27 jafntefli Vals gegn Porto í Kaplakrika í kvöld. Ef eitthvað var hann svekktur með að hafa ekki unnið í ljósi þess að Valsmenn komust tveimur mörkum yfir, 27:25, stuttu fyrir leikslok. Við spurðum Óskar Bjarna að því hvort úrslitin væru ekki frábær í ljósi þess hversu sterkt Porto væri.
„Að sjálfsögðu eru þetta frábær úrslit. Síðan miðað við hvernig þetta þróaðist í lokin þá er maður bara fúll að hafa ekki tekið þetta. Markvörðurinn þeirra ver 13 eða 14 bolta í fyrri hálfleik og munurinn í hálfleik er 7 mörk. Við vorum ekki að hlaupa nóg og ekki nógu hraðir í fyrri hálfleik.
Við byrjum síðan seinni hálfleik mjög vel og sóknin byrjar að mjatlast inn og vörnin kom líka. Við settum meiri hraða í leikinn og seinni hálfleikur bara stórkostlegur hjá strákunum."
En ef við tölum hreina íslensku þá hlítur að teljast stórkostlegt að gera jafntefli við Porto eftir að hafa verið mest 8 mörkum undir ekki satt?
„Að sjálfsögðu og við berum virðingu fyrir þessu stigi. Þetta er það gott lið og þeir eru það reyndir að þegar þeir eru komnir í þessa stöðu sem þeir voru í, 8 mörkum yfir þá bara klára þeir yfirleitt svona leiki nokkuð örugglega. Við vissum samt að þeir gætu aðeins brotnað þó þeir séu mjög góðir því þeir verða alltaf betri þegar líða tekur á tímabilið."
Valsmenn voru frekar hægir í fyrri hálfleik og voru ekki að nýta þennan hraða sem hefur verið leynivopn Valsmanna. Síðan kemur það í seinni hálfleik og niðurstaðan er jafntefli. Afhverju byrjuðu Valsmenn ekki fyrr að byggja upp hraðan?
„Já við drógum aðeins úr hraðanum í lok leiksins og fórum að bera meiri virðingu fyrir varnarleiknum því við vorum ekki með Róbert og Magnús Óla alveg 100% inni. Við erum bara ekki alveg komnir í fluggírinn hans Snorra eins og við segjum.
Mér fannst við hefðum átt að keyra hraðar í bakið á þeim í fyrri hálfleik. En þetta er bara alveg eins og í Vardar og það er bara alltof mikið að vera 7 mörkum undir í hálfleik. Það er bara okkar aulaskapur því við hlaupum illa til baka nokkrum sinnum og eru með einfaldar innleysingar. Það hefði verið allt í lagi að vera 3-4 undir í hálfleik. Það er allt í lagi því það eru bara meiri sveiflur í nútíma handbolta."
Valsmenn fóru líka illa með nokkur færi þar sem þið hefðuð getað jafnað fyrr og tvö færi fara úrskeiðis þar sem þið getið náð forskotinu.
„Við áttum að vinna þetta bara. En maður getur bara ekki sagt þetta á móti svona liði. Ég held líka kannski að þeir hafi orðið þreyttir eftir þetta ferðalag hjá þeim því það er þungt og erfitt að koma svona stuttu fyrir leik. En ég er bara stoltur af bæði Val og FH fyrir frábæran viðburð og gaman að sjá stemmninguna."
Þetta er þjóðaríþróttin eða hvað? „Þetta er þjóðaríþróttin já og þarna getum við náð árangri," sagði Óskar Bjarni í samtali við mbl.is.