Norski handknattleiksmarkvörðurinn Katrine Lunde segir erfitt að hugsa til þess ef félagslið hennar Vipers Kristiansand verður lýst gjaldþrota eins og útlit er fyrir.
Vipers hefur átt eitt besta kvennalið heims í handbolta undanfarin ár en á í miklum fjárhagsvandræðum. Ef ekki tekst að útvega 25 milljónir norskra króna, 332 milljónir íslenskra króna, fyrir föstudag verður félagið lýst gjaldþrota.
Lunde greindi frá því í samtali við norska ríkisútvarpið að leikmenn hafi verið kallaðir á fund í gærmorgun þar sem þeim var tilkynnt um stöðuna.
Félagið hélt í kjölfarið blaðamannafund í gær og opinberaði að Vipers sé á barmi gjaldþrots.
„Ég skelf í öllum líkamanum og finnst eins og ég hafi hlaupið maraþon í allan dag,“ sagði hin 44 ára gamla Lunde við NRK.