Fengu að sjá hvernig atvinnumenn haga sér

Sigursteinn Arndal, þjálfari FH.
Sigursteinn Arndal, þjálfari FH. mbl.is/Eyþór

Sigursteinn Arndal, þjálfari FH, var eðlilega svekktur með stórt tap gegn Gummersbach í Evrópudeild karla í handbolta í gærkvöld.

FH lék án Arons Pálmarssonar og Ólafs Gústafssonar í kvöld sem báðir voru meiddir en til stóð að Aron myndi spila en eftir upphitun kom í ljós að hann gat ekki spilað. Spurður að því hvað hefði betur mátt fara í leik FH í kvöld sagði Sigursteinn þetta:

„Við mætum stórkostlegu liði sem er með valinn mann í hverri stöðu og ég verð að segja að þó við höfum tapað stórt gegn þessu liði að mér fannst var það ótrúleg fagmennska hvernig Gummersbach nálgast sitt verkefni og voru á 100 frá fyrstu til síðustu sekúndu í leiknum. Ótrúlegur atvinnumannabragur á þeirra liði.

Á sama tíma og þeir eiga sinn besta leik þá molnar undan okkur. Við missum marga menn út af, það verður bara að segjast eins og er. Við algjörlega föllum niður og það stendur ekki steinn yfir steini hjá okkur.“

Þetta er kannski verkefni sem FH getur lært helling af ekki satt? Guðjón Valur sagði hér áðan að í liði FH væri fullt af framtíðar atvinnumönnum sem þyrftu nokkra daga í lyftingasalnum áður en þeir kæmu í stóru deildirnar úti. Ertu sammála þessu?

„Já algjörlega en ég hefði viljað sjá okkur halda betur í okkar skipulag í dag og vera þolinmóðari. Því í rauninni sóknarlega í fyrri hálfleik var margt jákvætt. Við gerum einn tæknifeil í fyrri hálfleik sóknarlega en varnarlega áttum við í mesta basli með þá því eins og þú sagðir sjálfur áðan eru þeir gríðarlega sterkir líkamlega og allt frábærir leikmenn.

En það sem við getum helst lært af þessu er hvernig við molnum og hvernig við missum trúna. Þó að leikurinn sé farinn þá er það svekkjandi hvernig við gefumst upp í lokin,“ sagði hann.

Aron Pálmarsson er á bekknum allan leikinn. Er einhver sérstök ástæða fyrir því?

„Það stóð til að Aron myndi spila og hann æfði í gær og hann gerði allt til að verða klár. Síðan gerast hlutir í upphitun sem gera það að verkum að hann gat ekki spilað sem er fyrst og fremst leiðinlegt fyrir hann því hann er búinn að leggja mikið á sig til að ná að spila og við hefðum svo sannarlega getað notað krafta hans í kvöld.

Síðan stuttu síðar meiðist Ólafur Gústafsson og síðan Ásbjörn Friðriksson á eftir honum þannig að það reyndi vel á liðið í kvöld,“ sagði Sigursteinn.

Þannig að FH fer út úr þessu verkefni með þrjá mikilvæga leikmenn á meiðslalistanum?

„Já, eins og staðan er núna þá lítur það þannig út,“ sagði hann.

Næsta verkefni FH er á móti Gróttu á föstudag. Verður erfitt að setja liðið saman eftir leikinn í kvöld?

„Við vissum að við myndum lenda í erfiðum aðstæðum í kvöld en við þurfum að halda fókus á deildinni. Nú þurfum við bara að sleikja sárin í kvöld og svo er nýr dagur á morgun og FH er enn þá gott lið þó við höfum tapað stórt í kvöld.

Við vöknum bara í fyrramálið og höldum áfram að vinna í okkar málum. Líkt og þú vitnaðir í Guðjón Val hér áðan þá sagði ég við mína menn að þarna fengu þeir að sjá hvernig atvinnumenn haga sér og hvað þarf til að komast á þetta stig,“ sagði Sigursteinn að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert