Landsliðsfyrirliðinn Aron Pálmarsson er á förum frá FH og á leið til síns gamla félags Veszprém í Ungverjalandi, samkvæmt heimildum Handball-Planet.
Samkvæmt miðlinum mun Aron gera samning við Veszprém út yfirstandandi leiktíð. Bjarki Már Elísson leikur með liðinu.
Aron sneri heim úr atvinnumennsku fyrir síðustu leiktíð og varð Íslandsmeistari með FH síðastliðið vor. Hann hefur verið frá keppni undanfarnar vikur vegna meiðsla.
Aron, sem er 34 ára, lék með Veszprém frá 2015 til 2017 eða þar til hann samdi við Barcelona á Spáni. Hann hefur einnig leikið með stórliðum Kiel og Aalborg.
Veszprém var allt annað en sátt við Aron þegar hann yfirgaf félagið á sínum tíma og sakaði hann um óheiðarleika, en Aron átti ár eftir af samningi sínum við Veszprém þegar hann hætti að leika með liðinu. Það mál virðist gleymt og grafið.