Flautumark í jafntefli Gróttu og FH

Magnús Gunnar Karlsson ver eitt af 15 skotum sem hann …
Magnús Gunnar Karlsson ver eitt af 15 skotum sem hann varði í marki Gróttu í kvöld. mbl.is/Anton Brink

Grótta og FH gerðu jafntefli, 24:24, í æsispennandi leik í sjöundu umferð úrvalsdeildar karla í handknattleik á Seltjarnarnesi í kvöld. Grótta jafnaði metin með marki úr vítakasti þegar leiktíminn var útrunninn.

FH er áfram í öðru sæti en nú me 11 stig líkt og topplið Aftureldingar. Grótta fór þá úr sjötta upp í fjórða sæti þar sem liðið er með níu stig.

Leikurinn var í járnum allan tímann þar sem liðin náðu bæði mest tveggja marka forystu.

Seint í leiknum var FH einmitt tveimur mörkum yfir, 23:21. Grótta gafst ekki upp og jafnaði metin í 23:23 áður en Birgir Már Birgisson skoraði þegar rúm hálf mínúta var eftir.

Á lokasekúndunni var dæmt vítakast á Ásbjörn Friðriksson fyrir brot á Ágústi Inga Óskarssyni. Ágúst Ingi tók vítakastið sjálfur og jafnaði þar með metin í 24:24, sem reyndust lokatölur.

Var þetta eina mark Ágústs Inga í leiknum úr fimm skotum.

Magnús Gunnar Karlsson átti stórleik í marki Gróttu en hann varði 15 skot og var með 39,5 prósent markvörslu.

Markahæstur í leiknum var Jón Ómar Gíslason með sjö mörk fyrir Gróttu.

Hjá FH varði Daníel Freyr Andrésson 11 skot og var með rúmlega 31 prósent markvörslu.

Markahæstir hjá Hafnfirðingum voru Leonharð Þorgeir Harðarson, Símon Michael Guðjónsson og Garðar Ingi Sindrason með fjögur mörk hver.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert