Matarboð hjá Guðmundi Guðmundssyni

Arnór Viðarsson og Guðmundur Þ. Guðmundsson.
Arnór Viðarsson og Guðmundur Þ. Guðmundsson. mbl.is/Eyþór&Kristinn Magnússon

„Fyrstu mánuðirnir eru búnir að vera mjög skemmtilegir. Ég hef verið að spila á móti bestu liðum Evrópu,“ sagði handknattleiksmaðurinn Arnór Viðarsson í samtali við Morgunblaðið.

Hann gekk til liðs við danska félagið Fredericia frá uppeldisfélagi sínu ÍBV í sumar og samdi til þriggja ára.

„Þetta er mikið stökk frá því að spila í úrvalsdeildinni heima. Svo er maður að reyna að koma sér inn í hlutina hérna, það tekur smá tíma.

Munurinn er töluverður. Markverðirnir eru náttúrlega í heimsklassa og það eru atvinnumenn í öllum stöðum. Það eru engir áhugamenn eins og á Íslandi. Þetta er allt annað,“ sagði Arnór, sem er 22 ára gamall.

Matarboð hjá Guðmundi

Fredericia er mikið Íslendingalið þar sem Guðmundur Þ. Guðmundsson er þjálfari og Einar Þorsteinn Ólafsson er leikmaður.

„Það er mjög gott að hafa Íslendinga með sér. Við Einar búum hlið við hlið og erum að labba í búðina núna. Það er mjög fínt að hafa einhvern til þess að leiðbeina manni í gegnum þetta.

Þetta hefur gengið mjög vel. Gummi er búinn að bjóða okkur í mat og svona þannig að þetta er bara fínt,“ sagði Arnór sem var staddur í Veszprém í Ungverjalandi er Morgunblaðið náði tali af honum. Mættust liðin í A-riðli í gærkvöldi.

Bræðurnir þrír hjálpa hver öðrum

Eyjamaðurinn er úr mikilli handboltafjölskyldu. Eldri bróðir hans er Elliði Snær, 25 ára línumaður Gummersbach í Þýskalandi og íslenska landsliðsins, og yngri bróðir Arnórs, Ívar Bessi, er 19 ára efnilegur leikmaður ÍBV. Leitaði Arnór ráða hjá Elliða Snæ áður en hann skipti til Fredericia.

Arnór sagði þá Elliða Snæ reyna að hjálpa hvor öðrum eins mikið og þeir geta.

„Já, við tölum mikið saman um handbolta. Ég reyni að horfa á alla leiki hjá honum og hann reynir að horfa á alla leiki hjá mér. Við tölum oft um það eftir leikina hvað hefði mátt betur fara og þess háttar.“

Viðtalið í heild sinni má sjá í Morgunblaði dagsins.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka