Þægilegt hjá meisturunum gegn nýliðunum

Sigríður Hauksdóttir í þann mund að skora eitt af sjö …
Sigríður Hauksdóttir í þann mund að skora eitt af sjö mörkum sínum fyrir Val í kvöld. mbl.is/Anton Brink

Íslands-, bikar- og deildarmeistarar Vals í handknattleik kvenna héldu áfram góðu gengi sínu í úrvalsdeildinni þegar liðið heimsótti nýliða Gróttu á Seltjarnarnes og hafði betur, 38:30 í sjöttu umferð deildarinnar í kvöld.

Valur er áfram með fullt hús stiga, 12, á toppi deildarinnar eftir sex leiki. Grótta er í áttunda og neðsta sæti með tvö stig.

Valur var við stjórn stærstan hluta leiksins og var farið langt með að gera út um hann í hálfleik þegar staðan var 20:14.

Í síðari hálfleik héldu Valskonur góðum takti og niðurstaðan að lokum átta marka sigur.

Þórey Anna Ásgeirsdóttir var markahæst í leiknum með með 11 mörk fyrir Val. Sigríður Hauksdóttir skoraði sjö mörk úr jafnmörgum skotum. Lovísa Thompson og Elín Rósa Magnúsdóttir skoruðu sex mörk hvor.

Hafdís Renötudóttir varði 13 skot í marki Vals og var með tæplega 32 prósent markvörslu.

Markahæst hjá Gróttu var Ída Margrét Stefánsdóttir, sem lék með Val í yngri flokkum, með sex mörk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert