Varnarjaxlinn óvenju drjúgur í markaskorun

Ýmir Örn Gíslason eftir leik með íslenska landsliðinu.
Ýmir Örn Gíslason eftir leik með íslenska landsliðinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ýmir Örn Gíslason, landsliðsmaður í handknattleik, átti stórleik fyrir Göppingen þegar liðið vann sterkan heimasigur á Bietigheim í þýsku 1. deildinni í kvöld.

Ýmir Örn, sem er þekktari fyrir vasklega framgöngu í varnarleiknum en er þó liðtækur línumaður, var sérstaklega drjúgur í sóknarleiknum í kvöld og skoraði fimm mörk.

Var hann þriðji markahæsti leikmaðurinn í leiknum og næstmarkahæstur í liði Göppingen, sem vann sinn fyrsta sigur á tímabilinu og fór með honum upp í 14. sæti.

Fyrr í kvöld hafði Íslendingalið Gummersbach lagt Eisenach að velli, 34:32.

Elliði Snær Viðarsson skoraði tvö mörk en Teitur Örn Einarsson er frá vegna meiðsla hjá Gummersbach, sem Guðjón Valur Sigurðsson þjálfar.

Gummersbach er í fimmta sæti með tíu stig, jafnmörg og öll fjögur liðin fyrir ofan en öll eiga þau leik eða leiki til góða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka