Íþróttadeild Morgunblaðsins og mbl.is heldur áfram að gramsa í myndasafni Morgunblaðsins og birta á mbl.is á laugardögum.
Þýska liðið Gummersbach heimsótti Ísland á dögunum með Guðjón Val Sigurðsson í brúnni og Elliða Snæ Vignisson í liðinu. Þýska atvinnumannaliðið vann sannfærandi sigur á FH í Kaplakrika í Evrópudeildinni í handknattleik.
Gummersbach hefur komið nokkrum sinnum til Íslands. Meðfylgjandi mynd var tekin þegar Gummersbach mætti Val á Hlíðarenda í Meistaradeildinni 28. september árið 2007.
Á myndinni er leikstjórnandinn Sigfús Páll Sigfússon kominn langleiðina í gegnum vörn Gummersbach en er stöðvaður aftan frá. Þar er á ferðinni enginn annar en Akureyringurinn Sverre Jakobsson, einn af silfurdrengjunum frá Ólympíuleikunum í Peking árið 2008. Í baksýn er Valsarinn Elvar Friðriksson.
Myndina tók Brynjar Gauti sem myndaði lengi fyrir Morgunblaðið og mbl.is.
Sigfús Páll mætti Gummersbach raunar með tveimur íslenskum liðum í Evrópuleikjum. Hann var í liði Fram sem tók á móti Gummersbach í Laugardalshöllinni haustið 2006. Þá var Guðjón Valur leikmaður Gummersbach og Alfreð Gíslason við stjórnvölinn.
Félagaskipti Sigfúsar úr Fram yfir í Val á sínum tíma eru einhver þau umtöluðustu í sögu Íslandsmótsins enda gekk ekki lítið á milli félaganna meðan á því stóð.
Sigfús Páll skoraði 2 mörk fyrir Val í leiknum og Elvar Friðriks skoraði 5 mörk. Róbert Gunnarsson var einnig í liði Gummersbach ásamt Sverre og skoraði Róbert 5 mörk.