Aron búinn að skrifa undir í Ungverjalandi

Aron Pálmarsson skrifaði undir tveggja ára samning í Ungverjalandi.
Aron Pálmarsson skrifaði undir tveggja ára samning í Ungverjalandi. Ljósmynd/Veszprém

Aron Pálmarsson, fyrirliði íslenska karlalandsliðsins í handknattleik, er genginn til liðs við ungverska stórliðið Veszprém á nýjan leik.

Þetta herma heimildir mbl.is og Morgunblaðsins en tilkynnt verður um félagaskiptin síðar í dag. Aron skrifaði undir tveggja ára samning í Ungverjalandi.

Aron, sem er 34 ára gamall, sneri heim til Íslands eftir 14 ár í atvinnumennsku árið 2023 og samdi þá við uppeldisfélag sitt FH. Hann varð Íslandsmeistari með liðinu í fyrsta sinn í vor.

Aron þekkir vel til hjá Veszprém en hann lék með liðinu á árunum 2015 til 2017 og varð tvívegis meistari með liðinu og tvívegis bikarmeistari.

Hann hefur einnig leikið með Kiel í Þýskalandi, Barcelona á Spáni og Aalborg í Danmörku á atvinnumannaferlinum.

Hjá Veszprém hittir hann fyrir Bjarka Má Elísson, landsliðsmann í handknattleik, en þeir eru meðal annars herbergisfélagar í íslenska landsliðinu.

Aron Pálmarsson.
Aron Pálmarsson. mbl.is/Kristjan Orri Jóhannsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert