Moka því drasli í burtu

Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari.
Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari karlalandsliðs Íslands í handknattleik, er að vonum spenntur fyrir komandi landsliðsverkefni.

Ísland mætir Bosníu á heimavelli og Georgíu á útivelli í fyrstu leikjum liðsins í undankeppni EM 2026 snemma í nóvember. Grikkland er síðan fjórða liðið í undanriðlinum.

„Þetta leggst vel í mig. Það er klárlega komin spenna hjá mér. Langt síðan að við spiluðum leiki og engar æfingar heldur. 

Eingöngu vangaveltur sem getur verið þreytandi. Mjög gott að hittast aftur, langt síðan að við hittumst síðast en stutt í að við hittumst aftur. 

Númer eitt, tvö og þrjú er að hefja þessa vegferð með sóma, vinna þessa leiki og gera það vel. 

Einhvers staðar bak við eyrað er síðan HM. Tíminn líður og þetta styttist. Að ná árangri á stórmóti er langt frá því að vera einhver takki sem þú ýtir á,“ sagði Snorri Steinn í samtali við mbl.is. 

Alltaf stutt á milli

Ísland er fyrir fram langsterkasta lið riðilsins en allir þrír mótherjarnir voru á EM í Þýskalandi í janúar á þessu ári.

„Það er alveg eðlilegt að menn þekki þessi lið lítið. Báðar þessar þjóðir voru þó á EM í ár. Þar unnu Georgíumenn sem dæmi Bosníu. 

Bosnía spilaði hörkuleiki við Portúgal í undankeppni HM og Georgía spilaði hörkuleiki við Austurríki. 

Það er alltaf stutt á milli ef þú hegðar þér ekki eins og maður. Við gerum okkur grein fyrir því að ef við spilum okkar besta leik þá vinnum við okkar leik. 

Við þurfum að kalla það fram hins vegar. Bæði þessi lið eru með leikmenn í bestu deildunum. Ég ber virðingu fyrir þeim og nálgast þetta af mikilli festu og einbeitingu og geri kröfur á að strákarnir geri slíkt hið sama. 

Ef við gerum það þá veit ég að við munum spilað hörkuleiki. Það hefur reynst erfitt að spila þessa útileiki á undanförnum árum og ferðalagið er klárlega ekki auðvelt. 

Við verðum að taka það inn í myndina. Við höfum verið lélegir á útivelli alltof lengi og verðum að moka því drasli í burtu og vinna leikinn erlendis,“ bætti Snorri Steinn við. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert