Skilur óvissu stuðningsmanna um endurkomu Arons

Aron Pálmarsson í leik með Veszprém fyrir átta árum.
Aron Pálmarsson í leik með Veszprém fyrir átta árum. Ljósmynd/Veszprém

Spánverjinn Xavier Pascual, þjálfari karlaliðs ungverska handknattleiksstórveldisins Veszprém, skilur óvissu stuðningsmanna félagsins um endurkomu landsliðsfyrirliðans Arons Pálmarssonar. 

Aron skrifaði undir hjá félaginu á ný í morgun en hann kemur frá uppeldisfélagi sínu FH. Samningur hans gildir til ársins 2026.

Sjálfur í skýjunum en skilur stuðningsmenn

Aron lék áður hjá Veszprém á árunum 2015 til 2017 en viðskilnaðurinn var ekki góður.

Þrátt fyr­ir að vera samn­ings­bund­inn Veszprém á þeim tíma, neitaði Aron að mæta á æf­ing­ar hjá liðinu. Þess í stað fór hann heim til Íslands og beið eft­ir tæki­fær­inu til að semja við Barcelona. Veszprém hótaði síðan málsókn og tók meðal annars fram að Aron hefði getað fengið tveggja ára bann fyr­ir brot á samn­ingi sín­um. 

Því segist Pascual skilja óvissu stuðningsmanna en hann sjálfur er í skýjunum. 

„Ég skil að skoðanir eru mismunandi en við verðum öll að átta okkur á því að liðið er í forgangi. Ég er viss um að allir eigi eftir að verða ánægðir með endurkomu Arons.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert