Ekki þarf að taka norska félagið Vipers Kristiansand, sem hefur yfir einu sterkasta kvennaliði heims í handknattleik að skipa, til gjaldþrotaskipta eins og útlit var fyrir í gær.
Í gærkvöldi tilkynnti félagið að það yrði tekið til gjaldþrotaskipta þar sem ekki hefði tekist að útvega 25 milljónir norskra króna, 332 milljónir íslenskra króna, sem þurfti til þess að félagið gæti haldið sjó, í tæka tíð.
Í norskum fjölmiðlum í dag segir Peter Gitmark, stjórnarformaður Vipers Kristiansand, hins vegar að ónefndir fjárfestar hafi komið til skjalanna á ögurstundu og muni sem nýir hluthafar taka félagið yfir og greiða úr miklum fjárhagsvandræðum þess.