Orðið drulluskemmtilegt í Mosfellsbæ

Árni Bragi Eyjólfsson skoraði fimm mörk.
Árni Bragi Eyjólfsson skoraði fimm mörk. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta var virkilega góður leikur,“ sagði Árni Bragi Eyjólfsson leikmaður Aftureldingar í samtali við mbl.is eftir sigur á Stjörnunni á útivelli, 36:29, í úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld. Afturelding er með tveggja stiga forskot á toppnum.

„Við erum orðnir drulluheilsteyptir. Þorvaldur var frábær í dag og liðsheildin öll var frábær. Við leystum 5-1 vörnina þeirra betur í seinni. Það var mikið hikst á okkur framan af en við létum það ekki trufla okkur í seinni,“ sagði hann.

Margir í liði Aftureldingar spiluðu vel í kvöld og tíu leikmenn sem komust á blað.

„Blær og Birgir eru búnir að standa upp úr en í kvöld skora tíu hjá okkur og ef einn er tekinn út stígur annar upp í staðinn. Einar varði líka vel í seinni og það helst í hendur þegar stemningin kemur.

Í fyrri gerðum við honum ekki nægilega mikinn greiða og náðum ekki að klukka Tandra, sem er geggjaður skotmaður. Við vorum sterkari í seinni hálfleik og svo tók hann líka dauðafæri,“ sagði hann.

Afturelding komst upp í efstu deild karla í fótbolta á leiktíðinni og nú er karlaliðið í handbolta á toppnum og getur náð ansi langt.

„Við erum að gera vel á öllum vígstöðum og það hjálpar að vera góð í fótbolta, handbolta, blaki og öllu. Þetta er orðið drulluskemmtilegt í Mosfellsbæ og ég býst við troðfullu húsi í næsta leik,“ sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka