Sigur í endurkomuleik Arons Pálmarssonar

Aron Pálmarsson skrifaði undir tveggja ára samning í Ungverjalandi.
Aron Pálmarsson skrifaði undir tveggja ára samning í Ungverjalandi. Ljósmynd/Veszprém

Veszprém heldur góðu gengi sínu áfram í Meistaradeild Evrópu í handknattleik karla eftir útisigur á Pelister frá Norður-Makedóníu, 30:23, í kvöld. 

Vezprém er á toppi A-riðilsins með 10 stig eftir sex leiki. 

Aron Pálmarsson spilaði sinn fyrsta leik í sjö ár fyrir Vezprém en hann gekk í raðir félagsins á ný á dögunum. Hvorki hann né Bjarki Már Elísson skoruðu fyrir ungverska liðið. 

Vandræði Magdeburg halda áfram

Magdeburg mátti þá þola tap fyrir Barcelona, 32:26, í Barcelona í kvöld. 

Magdeburg hefur farið afleitlega af stað í Meistaradeildinni en liðið er með þrjú stig í sjöunda og næstneðsta sæti eftir sex leiki. Barcelona er hins vegar á toppnum með 12 stig, fullt hús. 

Gísli Þorgeir Kristjánsson skoraði þrjú mörk fyrir Magdeburg en Ómar Ingi Magnússon aðeins eitt. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert