Vendingar á botni úrvalsdeildarinnar

Sigurður Jefferson Guarino skoraði sjö mörk fyrir HK.
Sigurður Jefferson Guarino skoraði sjö mörk fyrir HK. mbl.is/Árni Sæberg

HK og Fjölnir eru komin úr fallsæti í úrvalsdeild karla í handknattleik eftir sigra liðanna í kvöld. 

HK vann ÍR, 37:30, í Kórnum í Kópavogi og Fjölnir vann Gróttu, 31:28, í Grafarvoginum. 

Eftir leikinn er Fjölnir í níunda sæti með sex stig, HK í tíunda sæti með fimm stig, ÍR í ellefta með fimm stig og KA í tólfta og neðsta sæti með fjögur stig. Fyrir umferðina voru Fjölnir og HK í fallsæti. 

Frábær seinni hálfleikur HK

HK átti frábæran seinni hálfleik í Kórnum í kvöld en hálfleikstölur voru 18:17, Kópavogsliðinu í vil. 

Í seinni hálfleik setti HK í annan gír, skoraði 19 mörk gegn 14 og vann leikinn með sex mörkum. 

Andri Þór Helgason og Sigurður Jeffersson Guarino skoruðu sjö mörk hvor fyrir HK en Leó Snær Pétursson skoraði sex. 

Hjá ÍR fór Bernard Kristján Darkoh á kostum og skoraði ellefu mörk en Baldur Fritz Bjarnason skoraði átta mörk. 

Fjölnir vann á síðustu tíu

Mikið jafnræði var á milli Fjölnis og Gróttu í Grafarvoginum en hálfleikstölur voru 15:14, Fjölni í vil. 

Grótta var yfir á 50. mínútu, 25:24, en þá setti Fjölnir í annan gír. Á síðustu tíu mínútunum skoraði Fjölnir sjö mörk gegn þremur og vann góðan sigur. 

Björgvin Páll Rúnarsson skoraði átta mörk fyrir Fjölni en Gísli Rúnar Jóhannsson skoraði fimm. Hjá Gróttu skoraði Jón Ómar Gíslason átta mörk og Kári Kvaran fimm. 

Björgvin Páll Rúnarsson skoraði átta mörk fyrir Fjölni.
Björgvin Páll Rúnarsson skoraði átta mörk fyrir Fjölni. Ljósmynd/Þórir Tryggvason
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka