Allt stressið er farið

Úr leiknum í kvöld.
Úr leiknum í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

„Það er mjög gott að vera búin að spila sinn fyrsta landsleik. Allt stressið er farið úr mér og það er voðalega gott að vera búin að klára þetta,“ sagði Dana Björg Guðmundsdóttir, vinstri hornamaður íslenska landsliðsins í handknattleik, eftir 30:24-sigur á Póllandi í vináttulandsleik í kvöld.

Dana Björg, sem er 22 ára gömul, lék sinn fyrsta A-landsleik og skoraði um leið sitt fyrsta mark. Hún var ánægð með leik Íslands í kvöld.

„Mér fannst við standa mjög vel í vörninni og erum með markmann sem var bara að taka allt. Svo reyndum við að loka leiknum og skoruðum svolítið af mörkum eftir hraðaupphlaup.

Við duttum aðeins niður í síðari hálfleik en mér fannst við vera með þetta allan leikinn,“ sagði Dana Björg í samtali við mbl.is eftir leikinn í Framhöllinni í Úlfarsárdal.

Í okkar höndum allan tímann

Þrátt fyrir að íslenska liðið hafi átt slæman kafla þar sem Pólland skoraði sjö mörk í röð og minnkaði muninn niður í þrjú mörk í stöðunni 24:21 fannst henni Ísland vera með góð tök á leiknum allan tímann.

„Það er ekki beint það besta, alls ekki, en mér fannst við vera við stjórn og með þetta í okkar höndum allan tímann. Við héldum bara áfram.“

Ísland og Pólland mætast í öðrum vináttulandsleik strax aftur á morgun. Sá leikur fer fram á Selfossi og hefst klukkan 16. 

„Það er bara mjög spennandi. Hvort þær bjóði upp á eitthvað annað eða hvort þær sýni það sama. Það verður lærdómsríkt og við sjáum hvernig það verður á morgun,“ sagði Dana Björg að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert