Jafnt í spennutrylli í Úlfarsárdal

Rúnar Kárason með boltann í leik liðanna á síðasta tímabili.
Rúnar Kárason með boltann í leik liðanna á síðasta tímabili. mbl.is/Árni Sæberg

Fram og Valur skildu jöfn, 31:31, í æsispennandi og bráðskemmtilegum leik í áttundu umferð úrvalsdeildar karla í Framhöllinni í Úlfarsárdal í kvöld.

Fram er eftir jafnteflið áfram í fimmta sæti en nú með níu stig. Valur heldur þá þriðja sætinu en er nú með tíu stig.

Heimamenn í Fram byrjuðu leikinn betur og náði þriggja marka forystu, 6:3, þegar tæpar átta mínútur voru liðnar af leiknum. Valsmenn náðu þá vopnum sínum og voru búnir að jafna metin í 7:7 aðeins fimm mínútum síðar.

Eftir það var lítið sem skildi liðin að og varð forystan ekki meiri en tvö mörk, sem Valur náði tvívegis er liðið komst í 8:10 og 13:15.

Eftir bráðskemmtilegan fyrri hálfleik var það Valur sem var einu marki yfir, 16:17, eftir að Úlfar Páll Monsi Þórðarson skoraði úr vítakasti undir blálok hálfleiksins.

Úlfar Páll var búinn að skora sex mörk í fyrri hálfleik líkt og Reynir Þór Stefánsson í liði Fram.

Framarar hófu síðari hálfleikinn af miklum krafti og komust fljótlega í 21:19 en aftur var Valur mjög snöggur að jafna metin í 22:22.

Heimamenn bættu þá enn frekar í og náðu fjögurra marka forystu í fyrsta sinn í leiknum í stöðunni 28:24.

Framarar voru í kjölfarið með góða stjórn á leiknum um stund en þegar skammt var eftir var sem einhver skrekkur kæmi í heimamenn á meðan gestirnir fundu loks dampinn í síðari hálfleik. Björgvin Páll náði nokkrum góðum vörslum, vörnin fór að standa betur og sóknarleikurinn að smella.

Valsarar söxuðu í sífellu á forskot Framara og voru búnir að jafna metin í 31:31 þegar tæplega tvær mínútur voru eftir.

Hvorugu liðinu tókst að bæta við marki eftir æsispennandi lokamínútur og reyndist jafntefli því niðurstaðan í stórskemmtilegum leik.

Úlfar Páll var markahæstur í leiknum með tíu mörk fyrir Val og Reynir Þór var markahæstur hjá Fram með sjö mörk.

Björgvin Páll Gústavsson varði 15 skot í marki Vals og var með tæplega 33 prósent markvörslu. Arnór Máni Daðason varði níu skot í marki Fram.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Fram 31:31 Valur opna loka
60. mín. Arnór Máni Daðason (Fram) varði skot Liðin skiptast á að missa boltann, Allan fær opið færi en Arnór Máni ver frábærlega!
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert