Magnaður fyrri hálfleikur skilaði Íslandi sigri

Andrea Jacobsen sækir að pólska markinu í kvöld.
Andrea Jacobsen sækir að pólska markinu í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Ísland hafði betur gegn Póllandi, 30:24, í fyrri vináttuleik liðanna í handknattleik kvenna í Framhöllinni í Úlfarsárdal í kvöld.

Liðin mætast í öðrum vináttulandsleik á Selfossi klukkan 16 á morgun.

Jafnræði var með liðunum í blábyrjun eins og við má búast en eftir að íslenska liðið jafnaði metin í 3:3 setti það í fluggír.

Ísland tók öll völd á vellinum þar sem allt var að smella. Sóknarleikurinn var eldsnöggur og einkar beinskeyttur, Hafdís Renötudóttir varði mjög vel í markinu en það sem skildi sérstaklega á milli liðanna var varnarleikurinn, sem var í sérflokki.

Pólska liðið vissi ekki hvaðan það stóð á sig veðrið gegn geysilega öflugri íslenskri vörn sem neyddi gestina trekk í trekk í tæknifeila, sem endaði oftar en ekki með töpuðum boltum.

Ísland gekk á lagið, skoraði sjö mörk gegn einu og staðan orðin 10:4 þegar tæplega 18 mínútur voru liðnar af leiknum.

Í kjölfarið héldu þær íslensku sama dampi og gott betur, keyrðu yfir lánlausa Pólverja og munurinn var níu mörk, 18:9, þegar fyrri hálfleikur var úti.

Að fá á sig einungis níu mörk í einum hálfleik ber þess glögglega vitni hve frábær varnarleikurinn var hjá Íslandi. Pólland tapaði boltanum tíu sinnum í fyrri hálfleik og nýtti íslenska liðið sér það oftast með því að skora úr hraðaupphlaupum.

Gestirnir byrjuðu síðari hálfleikinn með svipuðum hætti og þann fyrri og voru fljótlega búnir að minnka muninn niður í sjö mörk, 19:12, eftir að Ísland hafði komist tíu mörkum yfir í upphafi hans.

Íslenska liðið lét þetta ekki á sig fá og var áfram með sjö til tíu marka forystu lengi vel. Þegar síðari hálfleikur var rúmlega hálfnaður fór hins vegar að síga á ógæfuhliðina hjá Íslandi og Pólland færðist sífellt nær.

Þegar rúmar átta mínutur voru til leiksloka var Pólland búið að minnka muninn niður í aðeins þrjú mörk, 24:21, eftir að hafa skorað sjö mörk í röð. Eins og nærri má um geta gekk ekkert upp hjá Íslandi á þessum tímapunkti.

Eftir að Arnar Pétursson landsliðsþjálfari tók leikhlé í stöðunni 24:20 batnaði leikur Íslands töluvert á ný, liðið náði nokkrum sinnum fimm marka forystu og vann að lokum glæsilegan sex marka sigur.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Ísland 30:24 Pólland opna loka
60. mín. Katrín Anna Ásmundsdóttir (Ísland) skoraði mark
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert