Skildum þær eftir í rykinu

Steinunn Björnsdóttir í þann mund að skora eitt af fjórum …
Steinunn Björnsdóttir í þann mund að skora eitt af fjórum mörkum sínum í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta er ótrúlega góð tilfinning. Ég er ótrúlega stolt af liðinu,“ sagði Steinunn Björnsdóttir, línumaður og varnarjaxl íslenska landsliðsins í handknattleik eftir að það lagði það pólska að velli, 30:24, í vináttulandsleik í kvöld.

„Mér fannst heildarframmistaðan frábær. Ég geri mér grein fyrir því að það er annar leikur á morgun en það er svo margt í þessum leik sem við gerðum vel.

Við eigum að fagna því og vera stoltar af okkur fyrir þennan leik. Mér fannst rosalegur stígandi í liðinu, sérstaklega andlegi þátturinn, frá því á síðasta æfingamóti. Mér finnst það mjög flott,“ sagði Steinunn í samtali við mbl.is eftir leik.

Hvað skóp frábæran fyrri hálfleik ykkar?

„Mér fannst nátturlega Hafdís frábær í markinu. Mér fannst við góðar alls staðar, varnarleikurinn var frábær. Við vorum að vinna 50/50 bolta og vorum grimmari en þær og mér fannst við hraðari.

Hornamenn og við á línunni vorum að skilja þær eftir í rykinu og ég var ánægð með það,“ útskýrði hún, en Ísland var 18:9 yfir í hálfleik.

„Er ekki að detta í miðnætti?“

Pólland skoraði sjö mörk í röð í síðari hálfleik og minnkaði muninn þá niður í þrjú mörk.

„Það kemur pínu hikst í sóknarleikinn okkar, hún fer að verja aðeins í markinu hjá þeim. Svo fannst mér við kannski ekki alveg nógu klókar á leiðinni heim í vörn.

Þær voru að fá of auðveld mörk, við vorum ekki að snúa og ekki að mæta þeim nógu vel í vörninni í seinni bylgjunni. Eitt áhlaup frá þessu sterka liði, allt í lagi, tvö líka en við skoðum þetta og gerum betur fyrir morgundaginn,“ sagði Steinunn um slæma kaflann.

Hún er spennt fyrir því að mæta Póllandi aftur á Selfossi á morgun.

„Er ekki klukkan að detta í miðnætti? Það er ekki mikill tími fyrir endurheimt en við þurfum að skokka okkur niður, næra okkur vel og mæta stemmdar á morgun.

Vonandi verður góð mæting eins og var hér. Það var hrikalega góð stemning hérna í Lambhagahöllinni og vonandi verður hópurinn okkar ennþá þéttari og betri á morgun,“ sagði Steinunn að endingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert