Að þessu sinni vorum við sterkari

Katrín Tinna Jensdóttir eftir leikinn í dag.
Katrín Tinna Jensdóttir eftir leikinn í dag. mbl.is/Óttar

„Tilfinningin er ótrúlega góð. Þetta voru verðskuldaðir sigrar að mínu mati,“ sagði Katrín Tinna Jensdóttir, línu- og varnarmaður Íslands, eftir 28:24-sigur liðsins á Póllandi í vináttulandsleik í handknattleik á Selfossi í dag.

Pólland þótti fyrir fram sigurstranglegri aðilinn en Ísland gaf lítið fyrir það og vann tvo sterka sigra á tveimur dögum.

„Þær eru óneitanlega sterkar en að þessu sinni vorum við bara sterkari. Þá vinnur maður leikina,“ sagði Katrín Tinna í samtali við mbl.is eftir leik.

Hún spilaði mikið í leiknum eftir að hafa verið kölluð inn í leikmannahópinn stuttu fyrir leikina tvo eftir að Elísa Elíasdóttir, línumaður Vals, meiddist.

„Já, þetta voru ótrúlega mikilvægar mínútur fyrir mig og gott að geta skilað góðu framlagi í leiknum. Það var gott fyrir sjálfstraustið,“ sagði Katrín Tinna, sem skoraði þrjú mörk og stóð vaktina vel í vörninni.

Hún sagði sigrana tvo gefa góð raun í undirbúningi Íslands fyrir EM 2024, sem hefst eftir rúman mánuð.

„Já, alveg klárlega. Það er gott að fara með þessa leiki inn í það mót og mjög mikilvægt fyrir okkur að fá þá í undirbúningi fyrir það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert