Annar sterkur sigur Íslands á Póllandi

Thea Imani Sturludóttir skýtur að marki Pólverja í leiknum á …
Thea Imani Sturludóttir skýtur að marki Pólverja í leiknum á Selfossi í dag. mbl.is/Óttar Geirsson

Ísland hafði betur gegn Póllandi, 28:24, í seinni vináttulandsleik liðanna í handknattleik kvenna á Selfossi í dag.

Ísland vann fyrri leikinn í Framhöllinni í Úlfarsárdal í gærkvöldi 30:24.

Í leiknum í dag var Ísland með undirtökin stærstan hluta fyrri hálfleiksins. Liðið komst í 5:2 snemma leiks en þá tók pólska liðið ágætlega við sér og minnkaði muninn nokkrum sinnum í eitt mark.

Eftir að Pólland minnkaði muninn í 7:6 skoraði Ísland þrjú mörk í röð og náði í fyrsta sinn fjögurra marka forystu í stöðunni 10:6.

Íslenska liðið bætti um betur og náði fimm marka forystu í fyrsta sinn í leiknum þegar staðan var orðin 12:7.

Undir lok fyrri hálfleiksins var sóknarleikur íslenska liðsins ekki jafn beinskeyttur, nokkrir boltar töpuðust og pólska liðið nýtti sér það með því að skora nokkur mörk í röð eftir hraðaupphlaup. Pólverjum tókst að minnka muninn í tvö mörk, 13:11, áður en Ísland átti síðasta orðið og staðan 14:11 í hálfleik.

Ísland hóf síðari hálfleikinn af krafti og var fljótlega komið fjórum mörkum yfir, 16:12. Pólland gaf lítinn afslátt og minnkaði muninn nokkrum sinnum niður í tvö mörk.

Íslenska liðið lét það ekki á sig fá að Pólland færði sig nokkrum sinnum upp á skaftið og hleypti gestunum ekki nær en tveimur mörkum það sem eftir lifði leiks.

Báðum liðum gekk illa að skora undir lokin en var það Ísland sem skoraði síðustu tvö mörk leiksins og vann að lokum góðan fjögurra marka sigur.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Ísland 28:24 Pólland opna loka
60. mín. Pólland tapar boltanum
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert