Bjóst ekki við að fá mínútur

Rut Arnfjörð Jónsdóttir eftir leikinn í dag.
Rut Arnfjörð Jónsdóttir eftir leikinn í dag. mbl.is/Óttar

„Þetta er ótrúlega góð tilfinning. Ég bjóst svo sem ekkert við að fá mínútur en það var rosalega gaman að komast inn á völlinn,“ sagði Rut Arnfjörð Jónsdóttir, sem lék sinn fyrsta landsleik í langan tíma í 28:24-sigri Íslands á Póllandi í vináttulandsleik á Selfossi í dag.

Rut eignaðist sitt annað barn í nóvember á síðasta ári og lék því ekkert á síðasta tímabili. Hún kom ekkert við sögu í fyrri landsleiknum í Úlfarsárdal í gærkvöldi en kom töluvert við sögu í síðari hálfleik í dag.

Í samtali við mbl.is eftir leik sagði hún leikinn í dag hafa spilast öðruvísi en leikinn í gærkvöldi.

„Ég bjóst svo sem alveg við þeim dýrvitlausum í dag eftir tapið í gær. Mér fannst við sýna hvað við erum búin að bæta okkur mikið með því hvernig við komum inn í þennan leik, vegna þess að það er erfitt að koma í leik daginn eftir svona sigur eins og í gær.

Mér fannst við gera það alveg svakalega vel og sýndum að við erum orðnar stöðugri en við höfum verið áður. Þetta var jafnari leikur í dag en samt sem áður héldum við forystunni út allan leikinn.“

Hefði ekki getað verið betra

Í síðari hálfleik hleypti íslenska liðið því pólska aldrei nær sér en tveimur mörkum. Rut er hæstánægð með tvo góða sigra á sterkum Pólverjum nú þegar rétt rúmur mánuður er í EM 2024.

„Þetta er frábær undirbúningur fyrir okkur. Það er geggjað að fá svona sterkt lið hingað því við erum að fara að spila á móti hörkuliðum á EM. Þetta hefði ekki getað verið betra en að fá svona hörkulið eins og Pólland hingað heim í þessum undirbúningi. Það var algjörlega frábært,“ sagði hún að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert