Fengum nánast eingöngu jákvæð svör

Arnar Pétursson eftir leikinn í dag.
Arnar Pétursson eftir leikinn í dag. mbl.is/Óttar

Arnar Pétursson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í handknattleik, var að vonum ánægður með frammistöðu liðsins í tveimur vináttulandsleikjum gegn Póllandi í dag og í gærkvöldi.

Ísland vann fyrri leikinn í Úlfarsárdal í gærkvöldi 30:24 og síðari leikinn á Selfossi í dag 28:24.

„Ég upplifði leikinn þannig að við vorum einhvern veginn í beinu framhaldi af því sem við vorum að gera í gær. Við náðum að halda dampi og halda áfram því sem við vorum að gera í gær. Ég er mjög ánægður með það.

Maður er svo sem alltaf svolítið smeykur við það að spila aftur svona stuttu eftir svona góða frammistöðu eins og við sýndum í gær en mér fannst við svara því mjög vel og héldum áfram því sem vorum að gera þá,“ sagði Arnar í samtali við mbl.is eftir leik.

Ánægður með verkefnið

Í síðari hálfleik hleypti íslenska liðið því pólska aldrei nær sér en tveimur mörkum.

„Nei, ég er ánægður með það. Maður bjóst alltaf áhlaupi frá þeim í seinni hálfleik og við undirbjuggum okkur fyrir það í hálfleiknum. Okkur tókst að halda þeim alltaf í hæfilegri fjarlægð og ég er mjög ánægður með það,“ sagði hann.

Fékkstu það sem þú vildir út úr þessu verkefni?

„Já, engin spurning. Ég gerði það. Ég er á heildina litið ánægður með verkefnið. Við fengum auðvitað fullt af svörum, nánast eingöngu jákvæð svör í þessu verkefni.  Auðvitað er alltaf eitthvað sem við getum unnið með og þurfum að vinna með.

Við erum á leiðinni á stórmót þar sem við erum að fara að mæta frábærum þjóðum. Við þurfum að halda áfram á þessari braut. Fá góða frammistöðu í leikjum og góða upplifun, það er númer eitt, tvö og þrjú,“ sagði Arnar.

Stutt á milli í þessu

Íslenska liðið sýndi mikinn stöðugleika, bæði á milli leikjanna tveggja og í þeim sjálfum, en landsliðsþjálfarinn sagði það ekki sjálfgefið.

„Í þessum tveimur leikjum í þessu verkefni klárlega, það er alveg rétt, en við vorum auðvitað að koma úr verkefni í Tékklandi sem var töluvert erfiðara. Það sýnir það að það er stutt á milli í þessu.

Eins og er er ég ánægður með það sem við vorum að gera hérna og tökum það góða út úr því,“ sagði Arnar að lokum i samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert