Geggjað og við búum vel að því

Dagur Arnarsson skoraði átta mörk í dag.
Dagur Arnarsson skoraði átta mörk í dag. Ljósmynd/Sigfús/Gunnar

Dagur Arnarsson var markahæstur Eyjamanna með átta mörk er liðið lagði KA að velli í Vestmannaeyjum 36:31 í úrvalsdeild karla í handknattleik.

Dagur hóf leikinn á bekknum en kom fljótlega inn á og stýrði sóknarleik liðsins vel. ÍBV er því áfram með fullt hús stiga á heimavelli og jafnaði við Gróttu og Fram í 4. - 6. sæti deildarinnar.

Eyjamenn



„Það er bara þannig, þegar tveir eða þrír detta út þá þurfa aðrir að taka við keflinu, við erum að gera það ágætlega og þrátt fyrir hikst í síðasta leik erum við ánægðir með þessa ungu peyja. Við vorum flottir varnarlega og létum boltann fljóta vel í sókninni, við fórum vel yfir það sem við ætluðum að gera vel og það gekk upp. Við þurfum að halda áfram að gera vel og tengja það við næsta leik sem er ÍR, það er ekkert grín að fara þangað og vinna.“

Eyjamönnum hefur gengið illa á útivelli á leiktíðinni, aðeins eitt stig í fjórum útileikjum sem kom í fyrstu umferðinni gegn Valsmönnum.

„Það er eitthvað sem við þurfum að skoða, við erum staðráðnir í að gera betur og þetta er ekki eins og við ætlum að hafa þetta. Við erum staðráðnir í að bæta okkur í útileikjunum og vinna loksins einn útileik.“

Nýir leikmenn hafa verið að koma inn í hópinn í síðustu leikjum og breidd liðsins að aukast á meðan sterkir póstar eru frá.

„Það er bara þvílík breidd hérna í Eyjum, HBH er komið inn í þetta til þess að láta menn spila, það eru menn á kantinum tilbúnir að koma inn þegar það vantar menn, það er geggjað og við búum vel að því.“

Dagur skoraði átta mörk í dag, hann er oftast meira í því að skapa færi fyrir liðsfélaga sína en tók færin sín vel í dag.

„Ég man ekki eftir því að hafa oft skorað svona mikið en þegar maður fær hlutverk eins og í dag þá þarf að taka það og gera sitt besta. Þegar maður er kominn með punktinn þarf maður að skora þar líka,“ sagði Dagur sem var vítaskytta liðsins í dag.

Eyjamenn hafa unnið alla heimaleikina sína, átta stig af átta mögulegum þar en einungis eitt af átta mögulegum á útivelli, hver er helsti munurinn fyrir liðið að spila heima eða úti?

„Við erum að spila alltaf fyrir framan okkar besta fólk, sem gefur okkur helling, við þurfum að ná að yfirfæra það yfir á útivöll, koma með sömu orku inn í útileikina eins og heimaleikina. Við vitum af því að við erum að spila fyrir fólkið okkar þar líka, þrátt fyrir að það sé kannski ekki á staðnum, við erum alveg staðráðnir í því að gera betur á útivelli.“
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert