Varnarleikurinn er stóra vandamálið

Andri Snær Stefánsson ræðir við sína menn í KA í …
Andri Snær Stefánsson ræðir við sína menn í KA í leiknum í dag. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

„Ég er mjög ósáttur með varnarleikinn hjá okkur, við náðum aldrei að tengja saman vörn og markvörslu í dag og því var þetta erfitt,“ sagði Andri Snær Stefánsson, þjálfari KA, við mbl.is eftir ósigur í Vestmannaeyjum í dag í úrvalsdeild karla í handknattleik.

KA-menn hafa ekki náð sér í stig í fjórum útileikjum sínum á leiktíðinni og ÍBV hefur ekki tapað stigi heima í deildinni. Lokatölur voru 36:31 en þemað í viðtalinu varð því varnarleikurinn.

Bjarni Ófeigur Valdimarsson var allt í öllu í sóknarleik KA-manna í fyrri hálfleik en í þeim síðari kom Arnór Ísak Haddsson virkilega góður inn í sóknir gestanna.

„Sóknin var í raun og veru að mörgu leyti mjög góð eins og í mörgum leikum hjá okkur í vetur. Stóra vandamálið okkar hefur verið vörn og við þurfum áfram að vinna í því, við þurfum að hjálpast að með það.

Við höfum reynt að spila bæði 5-1 og 6-0 en erum að leka inn alltof mikið af mörkum, við höfum prófað ýmislegt annað en þurfum að laga varnarleikinn. Þrátt fyrir að sóknin hafi verið mjög fín þá brennum við af mjög mörgum færum og ég held að munurinn sé svakalegur í markvörslunni. Við töpuðum sanngjarnt í dag, því miður,“ sagði Andri.

Þrátt fyrir fimm marka sigur þá var munurinn í markvörslunni einungis tvö skot en KA-menn vörðu fleiri skot í fyrri hálfleik, 10 gegn 9, á fyrsta korterinu í síðari hálfleik voru Eyjamenn búnir að bæta við einu vörðu skoti en KA-menn engu.

„Við vorum rosalega andlausir og flatir í tengingunni milli varnar og markvörslu og það gengur ekki upp á móti góðu liði eins og ÍBV á þeirra heimavelli. Við hefðum þurft að gera betur þar,“ sagði Andri en allir leikmenn KA komu við sögu í leiknum, hefði hjálpað liðinu að fylla hópinn og mæta með 16 leikmenn en ekki 14?

„Ég held að númer eitt, tvö og þrjú sem hefði hjálpað væri það að fá vörn, sama hvernig við hefðum gert það, því það var vandamálið í dag.“

KA-menn hafa unnið tvo síðustu heimaleiki og eiga næsta leik við Stjörnuna á heimavelli.

„Við þurfum áfram að vinna í því að ná heilsteyptum leik, það er ekki ennþá búið að smella hjá okkur, það er samt margt jákvætt í þessu hjá okkur. Við erum að gera góða hluti til dæmis í sóknarleiknum, það þýðir ekkert annað en að bretta upp ermar og vinna í vörninni. Á heimavelli líður okkur klárlega vel og þar ætlum við að mæta klárir í næsta leik.“

Eyjamenn skoruðu átta mörk úr hraðaupphlaupum sem voru ekki að auðvelda KA-mönnum hlutina.

„Munurinn var klárlega mikill í hraðaupphlaupum liðanna í dag og ég var ósáttur með það því við höfðum undirbúið okkur vel fyrir það, því ÍBV eru með góða hraðaupphlaups hornamenn. Við hefðum þurft að hlaupa betur til baka. Við prófuðum 6-0 og 5-1 en aðallega þurfum við að fá meira sjálfstrausts mindset í okkar varnarleik, við munum halda áfram að finna þær lausnir.“

KA-menn hafa unnið tvo leiki í fyrstu átta umferðunum og eru þrátt fyrir það á botninum, deildin er því töluvert jafnari í ár heldur en síðustu ár.

„Það er nokkuð ljóst að deildin er mun sterkari en margir áttu von á, nýliðarnir hafa sótt fullt af stigum. Við þurfum að átta okkur á því að enginn leikur er unninn fyrirfram. Við höldum áfram að berjast,“ sagði Andri eftir leikinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert